Grunaður um líkamsárás á veitingastað

Verkefni lögreglu eru fjölbreytt.
Verkefni lögreglu eru fjölbreytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um slagsmál á veitingastað í miðbænum. Einn var handtekinn á vettvangi grunaður um líkamsárás. 

Þetta kem­ur fram í dag­bók lög­reglu þar sem greint er frá verk­efn­um lög­reglu frá klukk­an 17 í gær til 05 í morg­un.

Þá hafði lögregla mikið eftirlit með veitinga- og skemmtistöðum í miðbænum. Í dagbókinni kemur fram að skrifa hafi þurft skýrslur vegna réttindaleysis dyravarða eða ungmenna inn á skemmtistöðum. Nokkrir staðir megi mögulega eiga von á sektum vegna málanna.

Þá hafði lögregla afskipti af ökumanni til að kanna með ástand og réttindi. Segir í dagbókinni að hann hafi reynt að hlaupa undan lögreglu en hafi komist mjög skammt áður en hann hafi verið hlaupinn uppi og handtekinn. 

Sérstaklega er tekið fram í dagbókinni að mörg ölvunarmál, brot á lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg og mál sem tengdust miðbæ Reykjavíkur hafi komið upp. 

Gat ekki greitt fyrir leigubifreið

Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabær og Álftanesi, stöðvaði ökumann á 79 km/klst þar sem hámarkshraði var 40 km/klst. 

Sama lögreglustöð var einnig kölluð til vegna þjófnaðar úr anddyri heimahúss en þar hafði verið farið inn og munir teknir. Einstaklingurinn var handtekinn skömmu síðar með þýfið meðferðis.

Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, var kölluð til vegna einstaklings sem gat ekki greitt fyrir leigubifreið og neitaði svo að segja til nafns við afskipti lögreglu. Málið er í rannsókn.

Lögreglustöð fjögur, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, var kölluð til vegna umferðarslyss. „Einn var talinn slasaður á vettvangi en þarna hafði bifreið verið ekið inn í hlið annarrar bifreiðar á talsverðum hraða. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis auk þess að vera sviptur ökuréttindum,“ segir í dagbókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert