Enginn hefur axlað ábyrgð né beðið fjölskyldu þriggja ára drengs, sem féll ofan í brunn í Urriðaholti, afsökunar.
Drengurinn steig á lok sem lá yfir brunninum og féll niður að minnsta kosti tvo metra þar sem ekki hafði verið gengið nógu vel frá brunninum.
Þorra, drengnum sem um ræðir, varð ekki meint af en tilviljun réði því að ekki fór verr.
Helsta umræðuefnið í þriggja ára afmælisveislu Þorra í dag var atvik gærdagsins, þar sem betur fór en á horfðist, að sögn Björgvins Gunnars Björgvinssonar, föður drengsins, en blaðamaður ræddi við Björgvin skömmu eftir veisluna.
Vísir greindi fyrst frá atvikinu.
„Þetta hefði getað endað miklu verr,“ segir Björgvin.
Hver sem er hefði getað fallið ofan í brunninn og var lán í óláni að þetta kom fyrir barn sem var í fylgd með fullorðnum, en Þorri var með ömmu sinni.
Þorri gekk ofan á lokið sem er að sögn Björgvins léttur málmbiti sem hægt er að lyfta af með annarri hendi.
„Strákurinn er þriggja ára. Hann er ekki þyngri en kannski 12-15 kíló. Það þarf ekki meiri þunga en það til þess að lokið hrynji undan honum,“ segir Björgin.
Hann segir það versta hafa verið að lokið hafi fallið á sama stað og Þorri datt ofan í brunninn, og hann hefði því hreinlega horfið ofan í jörðina.
„Ef það hefði enginn verið á staðnum þá hefði enginn vitað af þessu. Hann bara hverfur inn í myrkrið.“
Björgvin telur að fallið hafi líklega verið meira en tveir metrar. „Þetta er það langt niður að fullorðinn maður myndi ekki komast upp úr.“
Sem betur fer þá meiddi Þorri sig ekki við fallið.
„Þetta er hátt fall og hann dettur með fætur fyrst. Svo er einhver drulla þarna niðri sem mýkir fallið. Lukkulega var ekkert vatn þarna ofan í.“
Viðbragðsaðilar voru fljótir á vettvang en til þess að ná Þorra upp úr brunninum þurftu afi drengsins og sjúkraflutningamaður að halda í fæturna á öðrum sjúkraflutningamanni sem var látinn síga með höfuðið á undan ofan í brunninn.
Hann þurfti allur að fara ofan í brunninn til þess að ná taki á Þorra.
Björgvin telur ljóst að frágangur á brunninum hafi ekki verið í lagi og segir hann að bæði lögregla og slökkvilið hafi talað um að frágangurinn væri ólöglegur.
„Mér finnst þetta ekkert eðlilegt. Þetta er rosalega hættulegt. Það verður að tækla þetta. Þetta má ekki gerast aftur,“ segir Björgvin.