Veitur, dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, leita jarðhita á höfuðborgarsvæðinu til að tryggja stöðuga afhendingu á heitu vatni til íbúa og fyrirtækja. Höfuðborgarsvæðið stækkar hratt og viðmið Veitna eru að notkun í hámarksálagi aukist að jafnaði um 120 lítra á sekúndu á hverju ári.
Veitur hafa fengið heimild hjá Reykjavíkurborg til að hefja rannsóknarboranir á Kjalarnesi og Geldinganesi. Og í sumar hafa staðið yfir tilraunaboranir á Álftanesi, sem lofa góðu.
Stefnt er að því að hefja boranir á Kjalarnesi og Geldinganesi í október, að sögn Þráins Friðrikssonar, auðlindaleiðtoga hitaveitu hjá Orkuveitunni.
Þráinn segir að Veitur reki nokkrar hitaveitur og er veitan á höfuðborgarsvæðinu sú langstærsta. Vöxtur hafi verið hjá flestum veitunum á undanförnum árum.
Veitur verði að vera tilbúnar til að takast á við hámarksnotkun sem er í kuldaköstum á vetrum. Hámarksnotkun á höfuðborgarsvæðinu eykst um 100-120 sekúndulítra á milli ára. „Við erum að takast á við toppinn, ekki meðaltalið,“ segir Þráinn.
Samið hefur verið við Ræktunarsamband Flóa og Skeiða ehf. um að annast borverkefnin.
Fyrirtækið sótti um framkvæmdaleyfi til Reykjavíkurborgar á borunum á Kjalarnesi og Geldinganesi. Til verksins verða notaðir borarnir Freyja, á Kjalarnesi, og Trölli á Geldinganesi. Unnið hefur verið að því að útbúa borplön og leggja aðkomuvegi.
Holurnar sem verða boraðar í haust verða 800 metra djúpar. Þær verða fóðraðar með 8 ⅝" fóðringu niður á um 300 metra og vinnsluhlutinn verður boraður með 6 ½" borkrónu.
„Ef svona hola hittir á góða lekt getur hún gefið þetta 25 lítra á sekúndu,“ segir Þráinn.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 3. október.