Séra Herjólfur eða örkin hans Óla

Margir ráku upp stór augu þegar einn vinsælasti prestur landsins var fyrir skemmstu tilkynntur sem nýr framkvæmdastjóri ferjunnar Herjólfs sem flytur fólk, varning og bifreiðar milli lands og Eyja.

Þar er á ferðinni sr. Ólafur Jóhann Borgþórsson, Eyjamaður, sem senn lætur af embætti sóknarprests í Seljakirkju. Hann hefur starfað á vettvangi þjóðkirkjunnar sem vígður þjónn í 18 ár.

Samhljóða ákvörðun

Stjórn Herjólfs var samhljóma í þeirri ákvörðun að fá klerkinn til starfa.

Þetta kemur fram í nýjasta þætti Spursmála þar sem sr. Ólafur Jóhann fór yfir fréttir vikunnar ásamt Stefáni Einari og Áslaugu Huldu Jónsdóttur.

Í þættinum segist Ólafur Jóhann ekki geta lofað því að lægja öldurnar eins og frelsarinn gerði forðum. En hann segir þó betra að hafa „Jesú með í bátnum“ eins og sungið er um í sunnudagaskólum vítt og breitt um landið.

Mun ferjan góða fá nýtt nafn, nú þegar sérann tekur …
Mun ferjan góða fá nýtt nafn, nú þegar sérann tekur við stjórn fyrirtækisins sem gerir hana út? mbl.is/Eyþór Árnason

Örkin hans Óla

Hann segir þó að gárungarnir hafi talað um að nú yrði að nefna Herjólf upp á nýtt. Nú væri réttara að kalla skipið örkina hans Óla. Enn aðrir hafa látið sér detta í hug að halda í nafnið, en kalla hann einfaldlega sr. Herjólf.

Áslaug Hulda og Ólafur Jóhann fara yfir fréttir vikunnar ásamt …
Áslaug Hulda og Ólafur Jóhann fara yfir fréttir vikunnar ásamt Stefáni Einari. mbl.is/María Matthíasdóttir

Mun einbeita sér að ferjurekstrinum

Ólafur Jóhann segist ekki munu sinna prestsstörfum samhliða framkvæmdastjórastarfinu.

„Ég sagði við prestana, kollegana í Eyjum að ég myndi skilja hempuna eftir í Reykjavík því ég hugsa að framkvæmdastjórastaðan hjá Herjólfi sé fullt starf og rúmlega það. Þannig að ég held að ég verði að leggja hempuna á hilluna og taka sjóstakkinn fram í staðinn.“

Viðtalið við Ólaf Jóhann og Áslaugu Huldu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert