Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir mikilvægt að stjórnmálamenn hafi augun á boltanum og því sem skipti mestu máli.
„Ég veit ekki hvað maður á að taka mikinn þátt í einhverjum útleggingum á því hvenær á að kjósa til eða frá. Það er fólk í þessu landi og við erum að vinna fyrir það fólk.“
Félagsmenn Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs samþykktu ályktun á landsfundi flokksins í dag um að stjórnarsamstarfið sé að nálgast leiðarlok og að stefna eigi að því að ganga til kosninga með vorinu.
Guðlaugur segir vitað mál að kjörtímabilið sé fjögur ár. Ef sú staða komi upp að skynsamlegt sé út frá þjóðarhag að kjósa fyrr þá skuli gera það en ef einhverjir gefist upp þá bara geri þeir það.
Telur hann tal um „eitthvað stjórnarsamstarf“ aukaatriði í hugum flestra.
„Ég held að við verðum að skilja hismið frá kjarnanum og kjarninn er sá að við þurfum að sinna þeim verkefnum sem við erum kosin til að sinna.“
„Því fylgir ábyrgð að vera þjóðkjörinn fulltrúi og það eina sem ég fer fram á er að fólk líti til þess. Ef menn ætla að fara í kosningar fyrr en er áætlað er mjög mikilvægt að menn geri það með þeim hætti að sem minnstur skaði verði.
Ef menn ætla að stytta kjörtímabilið þurfa að vera til þess sterk rök og menn þurfa þá að ganga þannig fram að það ógni ekki efnahagslegum stöðugleika eða einhverju því sem skiptir virkilega einhverju máli.“
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði ekki tök á að veita viðtal vegna málsins og ekki náðist í Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur, utanríkisráðherra og varaformann flokksins, við vinnslu fréttarinnar.