Vilja grenndarkynningu

Umsækjendur um alþjóðlega vernd munu fá húsaskjól í gamla JL-húsinu …
Umsækjendur um alþjóðlega vernd munu fá húsaskjól í gamla JL-húsinu vði Hringbraut. mbl.is/sisi

„Við erum ekki ánægð með að fá ekki grenndarkynningu hjá borginni varðandi breytingu á nýtingu á JL-húsinu og erum að kanna stöðuna með aðstoð lögfræðinga,“ segir Halla Bachmann Ólafsdóttir, formaður húsfélagsins á Grandavegi 42, í samtali við Morgunblaðið, en byggingin stendur næst JL-húsinu þar sem áformað er að hýsa á milli 300 og 400 hælisleitendur.

Nú standa yfir framkvæmdir við endurbætur á húsinu til þess að unnt verði að hýsa allan þann fjölda hælisleitenda. Húsið er fimm hæðir og er ætlunin að á neðstu hæðinni verði svokölluð virknimiðstöð, en búsetuúrræði fyrir hælisleitendur á hinum fjórum hæðunum.

Á fimmtudag var haldinn fundur með íbúum á Grandavegi 42, þar eru 142 íbúðir í sjö húsum, merktum a, b, c, d, e, f og g, og eru íbúar í húsunum ríflega 300 talsins. Íbúar eru ekki alls kostar ánægðir með fyrrgreind áform um búsetu hælisleitenda í JL-húsinu, sem er byggt sem verslunar- og skrifstofuhúsnæði, en þar var líka rekinn myndlistarskóli um hríð.

„Við skiljum ekki að hægt sé að setja gistirými fyrir 400 manns í hús sem hefur verið skólahúsnæði og að hluta fyrir gistingu, án þess að tala við nágrannana. Við spyrjum okkur líka um eldvarnir og aðkomu að húsinu, sem er við umferðareyju, og það hefur ekki verið greið leið fyrir slökkviliðið og sjúkraflutninga vestur í bæ og út á Nes. Það getur kviknað í og hvernig á þá að bjarga fólki?“ spyr Halla og bendir á að umferðareyja sé á annan veginn og lítið port á hinn.

Skrýtið að spyrja ekki íbúana

„Við reiknum með að borgin kynni okkur breytinguna,“ segir hún og finnst skrýtið að íbúar hafi einskis verið spurðir. „Við sáum þetta í fjölmiðlum eins og hver annar.“

„Íbúðareigendur hafa áhyggjur af því að 400 manns búi í húsi við hliðina á okkur þar sem engin aðkoma er á hvorugan veginn. Það er mjög sérstakt að það eigi að ganga upp. Borgin var spurð að því í fyrra hvort hægt væri að reka leikskóla þarna, en hún svaraði því til að þetta væri ekki húsnæði sem hæfði börnum,“ segir Halla og bætir því við að fleiri íbúar í nágrenninu séu óhressir með þessi áform.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka