„Viljum sjá til þess að þetta gerist aldrei aftur“

Karen Birna Einarsdóttir Stephensen og Hrefna Dís Héðinsdóttir.
Karen Birna Einarsdóttir Stephensen og Hrefna Dís Héðinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Hópur nemenda í Verzlunarskóla Íslands hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun sem snýr að því að stjórnvöld herði lög um vopnaburð á almannafæri.

„Hnífalaus framtíð“ er yfirskriftin að verkefninu, sem fjórar bekkjarsystur úr Verzlunarskóla Íslands hafa ráðist í.

„Þetta er verkefni í skólanum sem allir á fyrsta ári eru að gera. Markmið okkar er að breyta einhverju í samfélaginu hjá okkur. Við fengum að velja úr fimm heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og við ákváðum að velja markmiðið friður og vellíðan,“ segir Karen Birna Einarsdóttir Stephensen við mbl.is.

Hún og þrjár bekkjarsystur hennar, Tinna Sigríður Helgadóttir, Valdís Eva Eiríksdóttir og Hrefna Dís Héðinsdóttir, standa að baki undirskriftasöfnuninni.

Háar sektir við vopnaburði

„Við viljum að lögin gagnvart hnífaburði verði hert og erum að safna undirskriftum til þess að sýna fram á að það séu fleiri í samfélaginu sem vilji að það verði gert, þannig að hver sem er gripinn með hníf án góðrar ástæðu verði sektaður um háa upphæð,“ segir Karen Birna.

Stelpurnar hófu undirskriftasöfnunina út af hnífstunguárásinni á Menningarnótt þar sem Bryndís Klara Birgisdóttir lést af sárum sínum eftir að hafa verið stungin.

Viljum sjá til þess að þetta gerist aldrei aftur

„Bryndís Klara var með okkur í skóla og við sáum hvað þessi hræðilegi atburður hafði mikil áhrif á meðal allra nemenda í skólanum. Við viljum sjá til þess að þetta gerist aldrei aftur en því miður hefur hnífaárásum fjölgað eftir þennan atburð. Við viljum bara stöðva þessa þróun,“ segir Karen.

Karen segir að söfnun undirskriftanna gangi vel.

Markmiðið hafi verið að ná þúsund undirskriftum og þær séu nú orðnar 870 talsins. Hún segir að þær hafi fengið nokkrar samfélagsmiðlastjörnur með sér í lið, eins og Pál Óskar, Svölu Björgvins, Júlí Heiðar, Evu Ruzu og Háska.

Hér má nálgast undirskriftasöfnunina

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert