Áhuginn hrynur: Gjörbreytt umhverfi barna

Kristján segir fólk þurf að vera meðvitað um að umhverfi …
Kristján segir fólk þurf að vera meðvitað um að umhverfi barna sé gjörbreytt og að bregðast þurfi skynsamlega við. Samsett mynd

Sífellt færri nemendur í 10. bekk segja lestur vera eitt af helstu áhugamálum sínum. Hlutfall þeirra hefur lækkað úr 27% um aldamótin og niður í 20% nú, eða um rúm sjö prósentustig.

Um aldamót sögðust 37% nemenda vera mjög ósammála þeirri fullyrðingu að lestur væri tímasóun. Í dag segjast aðeins 19% nemenda vera því mjög ósammála. Lækkar hlutfallið um átján prósentustig frá aldamótunum.

Ljóst er að áhugi íslenskra barna á lestri hefur hrunið á þessu tímabili. Árið 2000 sögðust 33% nemenda í 10. bekk aðeins lesa þegar þau þyrftu þess. Í dag er hlutfallið 60% og jafnvel hærra.

Þetta sýna niðurstöður PISA og Skólapúlsins. Hægt er að sjá þróunina á árunum 2013 til 2023 á gröfunum sem hér fylgja.

Minnkar hratt um leið og skjátími eykst

Kristján Ketill Stefánsson, lektor í kennslufræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, hefur rannsakað þessa þróun og svokallaða lestraráhugahvöt meðal barna og tengsl hennar við snjallsímanotkun.

Virðist áhugi nemenda á lestri fara hratt minnkandi eftir því sem skjátími eykst.

Hann segir ekki hægt að fullyrða um orsökina á bak við þessa þróun.

Ýmsar rannsóknir bendi þó til þess að tilkoma snjalltækja og annars konar afþreyingarmöguleika leiki stórt hlutverk.

Ljóst er að áhugi íslenskra barna á lestri hefur hrunið …
Ljóst er að áhugi íslenskra barna á lestri hefur hrunið á sama tíma og snjallsímaeign barnanna er sífellt algengari. mbl.is/Hari

Umhverfið gjörbreytt

Sömuleiðis ber sífellt meira á skertum áhuga á lestri í yngri bekkjum grunnskóla.

Til að mynda hefur lestraráhugi barna í 6. og 7. bekk tekið skarpari dýfu en hjá eldri börnum, ef litið er til þróunar frá árinu 2018.

Að sögn Kristjáns bendir þetta til þess að á síðustu árum hafi sífellt yngri nemendur fengið snjalltæki eða aðra afþreyingarmöguleika til afnota, sem dregur úr áhuganum.

Má segja að við höfum sofnað á verðinum gagnvart snjallsímanotkun barna og ungmenna?

„Ég held að þetta sé allt að gerast núna. Við erum bara að læra að feta okkur í nýjum veruleika. Ég veit ekki hvort það er sanngjarnt að segja að við höfum sofnað á verðinum. Ég held að við þurfum bara að vera meðvituð um að umhverfi barna og fullorðinna er gjörbreytt og við þurfum að bregðast við á skynsamlegan hátt.“

Lesskilningur dregist mikið saman

Í síðustu PISA-könnun mældist hæfni nemenda á Íslandi undir meðaltali OECD-ríkjanna á öllum matssviðum, þar á meðal lesskilningi.

Var hlutfall barna sem náðu grunnhæfni á þessum þremur sviðum, sem OECD telur nauðsynlega til fullrar samfélagsþátttöku, einnig lægra á Íslandi en að meðaltali innan OECD-ríkjanna.

Aðeins 60% nemenda náðu svokallaðri grunnhæfni í lesskilningi í síðustu PISA-könnun.

Hefur árangur í lesskilningi dregist mikið saman frá PISA-könnun ársins 2018.

„Til þess að hafa áhuga á að lesa þarf líka …
„Til þess að hafa áhuga á að lesa þarf líka að búa yfir færni,“ segir Kristján Ketill. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Stór hluti barna nær ekki settum viðmiðum

Niðurstöður samræmdra lesfimiprófa benda einnig til þess að lestrargetu íslenskra grunnskólabarna sé ábótavant.

Stór hluti íslenskra barna nær ekki settum viðmiðum í lestrarfærni, eins og Morgunblaðið hefur greint frá.

Miðað er við að við lok 1. bekkjar geti helmingur nemenda lesið rétt 55 orð á mínútu. Samkvæmt gögnum menntamálayfirvalda náðu 69% barnanna því ekki í vor.

Auður Björgvinsdóttir, læsisfræðingur og aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, sagði í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði að þáttur í þessari þróun væri líklega að nú væru fleiri afþreyingarmöguleikar í boði fyrir börn en á árum áður.

„En á sama tíma er til fjöldi rannsókna sem sýna okkur hvernig við eigum að kenna lestur rétt og við eigum alveg að geta lagað þetta,“ sagði Auður.

Símafrí frekar en allsherjarbann

En hvernig aukum við áhuga nemenda á lestri?

„Ég held að það sé skynsamlegt að bjóða upp á símafrí í skólum,“ segir Kristján Ketill.

„Ef ég sem miðaldra karlmaður á í erfiðleikum með þetta er eðlilegt að ungt fólk eigi líka erfitt með að stjórna þessu,“ bætir hann við og vísar þá í notkun á snjalltækjum.

„Þetta er ekki vandamál hjá stærstum hluta nemenda en þessi notkun er vandamál hjá sumum nemendum og meira vandamál í sumum skólum en öðrum. Þess vegna finnst mér ekki skynsamlegt að hvetja til einhvers konar allsherjarbanns.“

Í skýrslu menntamálayfirvalda um stöðu menntakerfisins kemur fram að á …
Í skýrslu menntamálayfirvalda um stöðu menntakerfisins kemur fram að á síðasta ári hafi 39% allra drengja í grunnskólum landsins notið sérstaks stuðnings eða sérkennslu. Hlutfallið meðal stúlkna var 28%. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skólinn ætti að hjálpa börnunum

Kristján Ketill nefnir að til að mynda væri hægt að kenna nemendum hvernig mætti beita meiri sjálfsstjórn þegar kemur að notkun snjalltækja. Til viðbótar við þá kennslu væri svo hægt að innleiða símafríið með mismunandi hætti.

„Það væri kannski ákveðinn fjöldi daga í viku símalaus, eða hjá ákveðnum aldurshópi væri algjört símaleysi, eins og á yngsta stigi eða miðstigi. Á meðan væri takmörkuð notkun á unglingastigi ásamt kennslu um hvernig megi fylgjast með og takmarka notkun.“

Hann bendir á að þegar börn útskrifist úr skóla þurfi þau að stjórna skjátímanum og snjalltækjanotkun. „Við þurfum öll að læra að stjórna eigin hegðun og það er skólinn sem ætti að hjálpa börnum á þeirri vegferð.“

Áhugi kemur með hæfni

En frí frá snjalltækjum er ekki nóg til að auka ánægju af lestri. Nemendur þurfa jú að kunna að lesa.

„Til þess að hafa áhuga á að lesa þarf líka að búa yfir færni,“ segir Kristján Ketill og tekur fram að það eigi bæði við um leshraða og lesskilning.

Til þess að efla lestur er góð lestrarkennsla algjört lykilatriði. Þurfa kennarar þá að beita gagnreyndum kennsluaðferðum sem rannsóknir með samanburðarhópum hafa sýnt fram á að virki, að sögn Kristjáns Ketils. Hann segir það skýrt í stefnu menntamálayfirvalda að kennarar eigi að búa yfir hæfni til þess að beita slíkum kennsluaðferðum.

„En því miður eru ekki allar kennsluaðferðir sem notaðar eru í skólum í dag gagnreyndar.“

„Ég held að það sé skynsamlegt að bjóða upp á …
„Ég held að það sé skynsamlegt að bjóða upp á símafrí í skólum,“ segir Kristján Ketill. mbl.is/Hari

Mun hærra hlutfall en hin Norðurlöndin

Þá segir hann einnig skýrt í stefnu menntamálayfirvalda að kennarar eigi að beita stigskiptum stuðningi við kennslu. Hið fyrsta felur í sér almenna kennslu. Þeim hópi sem ekki hefur náð skilgreindri færni eftir ákveðinn tíma er síðan fenginn viðbótartími til að ná markmiðunum, en það nefnist annað stig. Þeir sem hafa enn ekki náð skilgreindri hæfni eftir að hafa fengið aukatíma fá að lokum sérkennslu, sem er þriðja stigið.

Í skýrslu menntamálayfirvalda um stöðu menntakerfisins kemur fram að á síðasta ári hafi 39% allra drengja í grunnskólum landsins notið sérstaks stuðnings eða sérkennslu. Hlutfallið meðal stúlkna var 28%.

„Í dag má segja að það séu í raun bara tvö stig. Það er almenn kennsla og þeir sem ná ekki hæfninni í almennri kennslu – þeir eru sendir í sérkennslu,“ segir Kristján Ketill.

Þannig að við beitum ekki þessari þrískiptu kennsluaðferð í nógu miklum mæli?

„Nei, ekki nógu skilvirkt, og það endurspeglast í því að við erum með rosalega hátt hlutfall nemenda í sérkennslu í samanburði við hin Norðurlandaríkin. Við erum ekki að nota þetta millistig.“

Í síðustu PISA-könnun mældist hæfni nemenda á Íslandi undir meðaltali …
Í síðustu PISA-könnun mældist hæfni nemenda á Íslandi undir meðaltali OECD-ríkjanna á öllum matssviðum, þar á meðal lesskilningi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Matsferill muni nýtast vel við þrískipta kennslu

Kristján Ketill segir lykilinn að stigskiptum stuðningi vera reglubundið mat á færni nemenda.

Matsferillinn, nýja námsmatið sem menntayfirvöld hafa boðað, muni reynast vel til að innleiða betur þrískipta kennslu.

Stefnt er að innleiðingu hans á næsta skólaári, en henni var flýtt í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar Morgunblaðsins og mbl.is í sumar.

Hann tekur þó fram að hann sé ekki að tala fyrir „gamaldags“ getuskiptingu þar sem nemendur sem voru lengur að tileinka sér námsefnið voru settir í svokallaða tossabekki.

Þvert á móti sé hægt að kenna nemendunum innan sama bekkjar þó að þeir séu komnir mislangt með námsefnið.

„Matsferillinn mun einfalda kennurum að beita aðferðum stigskipts stuðnings í skólastofunni. Hann mun vonandi minnka álagið á sérkennslunni og fá fleiri börn til þess að upplifa þessa hæfni sem er grundvöllur þess að upplifa áhuga. Áhuginn kemur ekki á undan hæfninni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert