Annar drengur féll í brunn: „Allt í einu heyri ég hávaðaöskur“

Atlas Krummi náði að komast sjálfur upp úr brunninum.
Atlas Krummi náði að komast sjálfur upp úr brunninum. Samsett mynd

Fjögurra ára drengur féll ofan í brunn við Rauðumýri í Mosfellsbæ síðasta sumar, en náði á einhvern ótrúlegan hátt að klifra sjálfur upp úr honum. Móðir drengsins segir brunninn nákvæmlega eins og þann sem þriggja ára drengur í Urriðaholti í Garðabæ féll ofan í á laugardag. Í því tilfelli þurfti viðbragðsaðila til að ná drengnum upp, en fallið var um tveir metrar.

Starfs­menn ÞG verks fara nú yfir alla brunna á lóðum þar sem fyr­ir­tækið hef­ur byggt síðustu ár og hyggj­ast breyta frá­gangi þeirra, en í samtali við mbl.is fyrr í dag sagði Örn Tryggvi Johnsen, verk­efna- og rekstr­ar­stjóri hjá ÞG verk, málið hafa verið sett í al­gjör­an for­gang hjá fyr­ir­tæk­inu, til að minnka líkur á að svona gerðist aftur.

Hann sagði jafnframt að fyrirtækið hefði ekki fengið ábendingu um sambærilegt atviki áður og ekki áttað sig á hættunni fyrr en eftir á. Margrét er ekki alveg viss hvort ÞG verk hafi byggt húsið við Rauðumýri en segir það vel geta verið. Það fórst hins vegar fyrir hjá henni að tilkynna um atvikið í sumar.

Mjög skelkaður og grét mikið

Margrét Björg Jakobsdóttir var að setja dót í bíl fjölskyldunnar og sonur hennar, Atlas Krummi, var að leika sér við húsið rétt hjá þegar hann féll ofan í brunninn við Rauðumýri síðasta sumar.

Atlas Krummi var mjög skelkaður eftir að hafa fallið í …
Atlas Krummi var mjög skelkaður eftir að hafa fallið í brunninn. Ljósmynd/Aðsend

„Allt í einu heyri ég hávaðaöskur og hann kemur til mín öskurgrátandi en ég vissi ekkert hvað gerðist. Ég spurði bróður hans, en hann vissi það ekki heldur, en svo fór hann með mig á staðinn og sagðist hafa dottið ofan í. Hann var líka allur í hvítu ryki og það var hvítt ryk þarna ofan í.“ 

Hún segir son sinn frekar stóran og sterkan eftir aldri og bylgjur eru í efninu sem brunnurinn er gerður úr, þannig hafi hann náð að fóta sig og klifra upp. „Hann hefur líka örugglega fengið smá adrenalínkikk.“ Drengurinn var mjög skelkaður eftir atvikið og grét mikið, að sögn Margrétar. Hann hafi því augljóslega orðið hræddur þegar hann féll ofan í brunninn þó hann hafi verið fljótur upp úr.

Börnin leika sér við brunninn

Umræddur brunnur er staðsettur í brekku við húsið og því frekar auðvelt að ýta lokinu af, en þegar drengurinn róaðist sagðist hann hafa tekið lokið af og runnið ofan í brunninn.

Leikvöllur er rétt fyrir neðan brunninn.
Leikvöllur er rétt fyrir neðan brunninn. Ljósmynd/Aðsend

Þá er brunnurinn alveg við leikvöll og Margrét segir börn alltaf vera að leika sér í kringum hann. Hún hafi heyrt að brunnurinn sé oft hálfopinn og að börnin leiki sér jafnvel að því að henda einhverju ofan í hann.

Örn sagði að hann grunaði að slíkir brunnar væru víða, og þá ekki bara á vegum ÞG verks. Strax í morgun hafi mannskapur frá fyrirtækinu farið af stað til að skoða og meta hvert einasta brunnlok á þeirra lóðum. Annað hvort verði skipt um lok eða brunnarnir lækkaðir og tyrft yfir lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert