Banaslysið varð er bifhjól fór að skjálfa og skakast

Slysið varð á Laugarvatnsvegi um 850 metra frá gatnamótum við …
Slysið varð á Laugarvatnsvegi um 850 metra frá gatnamótum við Biskupstungnabraut. Kort/Map.is

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur lokið rannsókn á banaslysi þar sem bifhjóli var ekið Laugarvatnsveg til norðurs í júlí í fyrra.

Fram kemur í skýrslu um atvikið að meginorsök slyssins megi rekja til þess að ökumaðurinn hafi misst stjórn á hjólinu þegar það fór að skjálfa og skakast á veginum.

Ók of hratt og hvorki með viðurkenndan hjálm né í viðeigandi öryggisfatnaði

Tekið er fram að ökumaðurinn, sem var 45 ára gamall karlmaður, hafi notað hjálm sem sé ekki viðurkenndur til notkunar á bifhjólum á Íslandi.

Hann hafi verið án CE-merkingar og veitti ekki nægjanlega vörn í slysinu. Ökumaðurinn var jafnframt ekki að fullu klæddur í viðeigandi öryggisfatnað við aksturinn.

Ökumaður bifhjólsins ók enn fremur yfir leyfðum hámarkshraða.

Loftþrýstingur undir viðmiðum og lausir boltar í stýri

Þá segir að loftþrýstingur beggja hjólbarða hafi verið undir viðmiðum framleiðanda. Að auki hafi boltar sem festu stýri við gaffal vinstra megin verið lausir. Slíkt geti haft áhrif á skak í bifhjóli.

Slysið varð 7. júlí í fyrra skammt frá gatnamótum Laugarvatnsvegar og Biskupstungnabrautar. Þar missti ökumaðurinn stjórn á bifhjólinu með þeim afleiðingum að það fór út fyrir veg þar sem hjólið endastakkst.

Ökumaður bifhjólsins lést á slysstað af völdum fjöláverka. Í greiningarkafla skýrslunnar kemur fram að ökumaður hafi misst stjórn á bifhjólinu þegar það fór að skjálfa og skakast á veginum. 

Yfirlitsmynd sem sýnir vinstri beygju við slysstað. Myndin er tekin …
Yfirlitsmynd sem sýnir vinstri beygju við slysstað. Myndin er tekin til norðurs. Ljósmynd/RNSA

Ýmsar tillögur í öryggisátt

Í skýrslunni segir að veðrið hafi verið gott umræddan dag, hiti um 17 gráður, bjart, þurrt og hægur vindur. Var yfirborð vegarins jafnframt þurr. Þá er tekið fram að niðurstaða úr áfengis- og lyfjarannsókn á ökumanni bifhjólsins hafi verið neikvæð.

Jafnframt segir að bifhjólið, sem var af tegundinni Harley Davidson Touring, hafi verið forskráð í október 2004 en nýskráð í júlí 2006. Bifhjólið var með gilda aðalskoðun, án athugasemda, þegar slysið átti sér stað. 

Rannsóknarnefnd samgönguslysa beinir þeirri tillögu til Samgöngustofu í skýrslunni að auka fræðslu um hlífðarbúnað bifhjólafólks.

Nefndin beinir einnig þeirri tillögu til Samgöngustofu að yfirfara og vinna umbætur á skoðunarhandbók gagnvart skoðun bifhjóla.

Þá beinir nefndir því til ökumanna og farþega bifhjóla að huga vel að hlífðarbúnaði sínum og yfirfara hann reglulega.

Loks vill nefndin koma á framfæri við ökumenn bifhjóla að vera meðvitaðir um hvaða þættir geta valdið skaki eða hristingi í bifhjólum, sem einnig má lýsa sem sjálfsörvaðri sveiflu í hjólinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert