Böndin berast að snjallsímum grunnskólabarna

Mikill meirihluti nemenda er með snjallsíma í skólanum.
Mikill meirihluti nemenda er með snjallsíma í skólanum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhugi íslenskra barna á lestri hefur hrunið frá aldamótum. Árið 2000 sögðust 33% nemenda í 10. bekk aðeins lesa þegar þau þyrftu þess. Í dag er hlutfallið 60% og jafnvel meira.

Nemendur sem eyða meiri tíma í snjallsímum á skólatíma hafa minni áhuga á lestri en þeir sem nota snjallsíma lítið eða ekkert. Lestraráhuginn fer sífellt hraðar dvínandi eftir því sem nemendur eyða meiri tíma í tækjunum.

Þetta sýna niðurstöður rannsóknar Kristjáns Ketils Stefánssonar, lektors við kennslufræði á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknin byggir á gögnum frá ríflega fimmtán þúsund nemendum í 6. til 10. bekk í 120 grunnskólum víðs vegar um landið.

Að sögn Kristjáns Ketils sannar rannsóknin ekki orsakasamband milli skjátíma og þess að hafa áhuga á lestri. Engu að síður virðist þó allt benda til þess að meiri skjátími dragi úr áhuga barna á lestri. Bendir hann til að mynda á rannsóknir erlendra fræðimanna sem sýnt hafa fram á tengsl símanotkunar og andlegrar vanlíðanar.

Um 81% nemenda í 6. til 10. bekk eru með snjallsíma í skólanum, hvort sem hann er geymdur ofan í vasa eða tösku. Hlutfall nemenda með síma er hærra í eldri bekkjunum en þeim yngri. Þannig eru um 91% nemenda í 9. og 10. bekk með snjallsíma í skólanum, 86% 8. bekkinga, 70% 7. bekkinga og 64% 6. bekkinga.

Snjallsímanotkun meðal nemenda er mismikil og eykst eftir aldri. Þá eyða stúlkur að jafnaði ívið meiri tíma í síma á skólatíma en drengir. Munar að meðaltali um 20 mínútum á kynjunum í efstu þremur bekkjunum.

Eykst til muna eftir 7. bekk

Meirihluti barna í 6. og 7. bekk eyðir engum tíma í snjallsíma á skólatíma, eða á bilinu 73-87%. Í 8. til 10. bekk lækkar það hlutfall aftur á móti niður í 20-29%. Er skjátími meirihluta barna í efstu þremur bekkjunum klukkutími eða meiri á dag yfir skólatíma. Þá eru dæmi um að börn eyði þremur klukkustundum á dag í símanum á skólatíma. Hlutfall þeirra nemenda er hæst í 10. bekk, eða um 5%.

„Ég átti ekki von á því að símanotkunin væri svona umfangsmikil,“ segir Kristján Ketill um niðurstöðurnar og vekur athygli á að um 44% nemenda í 10. bekk noti síma í eina og hálfa klukkustund eða meira á skólatíma.

Stór hluti íslenskra barna nær ekki settum viðmiðum í lestrarfærni, eins og Morgunblaðið hefur áður greint frá. Í öllum árgöngum grunnskóla náðu færri nemendur grunnviðmiði í vor en á síðasta ári.

„Erlendar rannsóknir hafa bent á að samhliða stóraukinni snjallsímanotkun ungmenna hefur líðan versnað og áhugi á lestri minnkað. Þetta eru ferlar sem eru að gerast samhliða.“

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka