Ekkert aðgengi í veislu starfsmanna ráðuneytis

Betur hefði mátt standa að skipulagningu starfsmannateitis félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, …
Betur hefði mátt standa að skipulagningu starfsmannateitis félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, að mati Bergs Þorra Benjamínssonar og Helgu Magnúsdóttur. Ljósmynd/Aðsend

Tilætluð samþjöppun starfsmannahópsins hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu gekk ekki eins og skyldi er starfsmaður með fötlun var útilokaður frá fyrirpartíi fyrir árshátíð vinnustaðarins um helgina.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið fer meðal annars fyrir málefnum fatlaðra og mannréttinda.

Bergur Þorri Benjamínsson er starfsmaður ráðuneytisins en hann hefur notað hjólastól í 25 ár. Bergur og eiginkona hans, Helga Magnúsdóttir, ræddu við blaðamann.

Ræddi við ráðuneytisstjórann

„Það var auglýst í einhverri starfsmannagrúppunni að það ætti að vera partí vestur í bæ. Ég lýsti strax áhuga mínum á að mæta þangað,“ segir Bergur.

„Ráðuneytisstjórinn á mínum vinnustað heyrði í mér fyrir einhverjum tveimur vikum.“

Þá hafi það verið gert ljóst að ekkert aðgengi væri fyrir Berg til þess að mæta í teitið.

„Ég sagði honum að ég treysti mér ekki í að fólk væri að bera mig upp eða ef það væri lítið eða ekkert aðgengi á staðnum,” segir Bergur. Sérstaklega hafi þetta átt við ef vín yrði við hönd.

Bergur og Helga í Washington-borg.
Bergur og Helga í Washington-borg. Ljósmynd/Aðsend

Réttast að endurskoða staðsetninguna

Helga bætir við að þegar það hefði verið ljóst að Bergur hefði ekki treyst sér til að mæta, sökum þess að ekkert aðgengi væri fyrir hann og það þyrfti að bera hann upp margar tröppur, að þá hefði verið réttast að endurskoða staðsetninguna.

„Maður hefði búist við því að akkúrat þetta ráðuneyti, sem fer með þennan málaflokk og er að passa upp á að það eigi að hafa alla í huga á vinnumarkaðnum, ætti að endurskoða staðsetninguna,“ segir Helga.

„Sérstaklega því þetta er tveimur vikum áður en partíið er haldið.“

Héldu eigið fyrirpartí

Starfsfólk deildarinnar sem Bergur vinnur á tók þá ákvörðun að mæta ekki í fyrirpartíið í Vesturbænum, heldur frekar að mæta til þeirra hjóna þar sem nóg pláss og aðgengi var.

„Okkur þykir það rosalega dýrmætt að þau skyldu standa svona vel með Bergi. Markmiðið að þjappa hópnum öllum saman fyrir árshátíð var náttúrulega komið út um gluggann,“ segir Helga.

Tekur hún fram að fólkið í deildinni hafi skemmt sér vel.

Mega ekki við hugsunarleysi

Helga segir að oft sé það ekkert þannig að fólk ætli sér að mismuna fötluðum, heldur sé það hugsunarleysi.

„Það sem kannski erfiðast er er þegar svona algjört hugsunarleysi á sér stað hjá ráðuneyti sem fer með þennan málaflokk og má eiginlega ekkert við því að vera með hugsunarleysi,“ segir Helga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert