Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, segir að slíta eigi stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknar.
Þetta sagði hann í Bítinu á Bylgjunni en á facebook skrifar Elliði:
„Það er ekki eftir neinu að bíða, drífum í að kjósa strax í haust!!! Kosningar eru eina leið okkar Sjálfstæðismanna til að endurnýja samtal við kjósendur án þess að þurfa stöðugt að gera það í gegnum sósíalísk viðmið VG (og Framsóknar).“
Enginn stjórnarflokkur mælist vel um þessar mundir.
Vinstri græn og Framsókn hafa hlutfallslega tapað mest, en í könnun Prósents fyrir Morgunblaðið í síðustu viku mældust Vinstri græn með 3% og Framsókn með 5%.
Sjálfstæðisflokkurinn mældist með 12% og hefur aldrei áður mælst með jafn lítið fylgi.
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, var einnig með Elliða í Bítinu og var harðorður um stjórnarsamstarfið. En hann gekk ekki svo langt að segja að það þyrfti að slíta samstarfinu.
„Nú hefur minnsti flokkurinn í þessu samstarfi sagt: Við ætlum ekki að ræða við ykkur frekar um útlendingamál,“ sagði Jón.
„Þannig þetta er auðvitað orðin einhver galin staða á þessu stjórnarheimili. Hún hefur svo sem verið það í svolítinn tíma að mínu mati,“ sagði Jón.