Fylgismunur leikur á hnífsegg vestanhafs

Kort/mbl.is

Kosningabaráttan vestanhafs er æsispennandi og miðað við kannanir er nær ómögulegt að vita hvor forsetaframbjóðandinn mun bera sigur úr býtum.

RealClearPolitics tekur saman meðaltal kannana og samkvæmt því leiðir Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna og forsetaframbjóðandi demókrata, á landsvísu, en hún mælist með 49,1% fylgi á sama tíma og Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti og forsetaframbjóðandi repúblikana, mælist með 46,9% fylgi.

Fylgið á landsvísu er þó ekki það sem ræður úrslitum. Til þess að sigra í kosningunum þarf að fá að lágmarki 270 kjörmenn sem frambjóðendur fá með því að vinna kosningar í ríkjunum.

Eins og sjá má á kortinu er Trump með forystu í kjörmannakerfinu og myndi fá 281 kjörmann en Harris fengi 257 kjörmenn.

Sveifluríkin skipta öllu máli

Sjö sveifluríki skipta öllu máli í komandi kosningum; Wisconsin, Michigan, Pennsylvanía, Norður-Karólína, Georgía, Arizona og Nevada. Þetta eru þau ríki þar sem búast má við því að frambjóðendur fái álíka mikið fylgi og hvorugur frambjóðandi er með afgerandi forskot í mælingum.

Samkvæmt RealClearPolitics mælist Harris með 0,8 prósentustiga forskot í Wisconsin, í Michigan er hún með 0,7 prósentustiga forskot og í Nevada er hún með 1,1 prósentustigs forskot.

Á sama tíma er Trump að mælast með 1,4 prósentustiga forskot í Arizona, í Georgíu er hann með 1,5 prósentustiga forskot og í Norður-Karólínu er hann með 0,6 prósentustiga forskot.

Kamala Harris hefur styrkt stöðu demókrata verulega samanborið við stöðu …
Kamala Harris hefur styrkt stöðu demókrata verulega samanborið við stöðu flokksins áður en Biden dró framboð sitt til baka. AFP/Elijah Nouvelage

Pennsylvanía sveifluríkið með flesta kjörmenn

Tæknilega séð mælist hvorugt forskot í Pennsylvaníu, þar sem frambjóðendurnir mælast báðir með 48,2% fylgi.

Þegar báðir frambjóðendur mælast með jafn mikið fylgi – upp á kommu – miðar RealClearPolitics við síðustu könnun þar sem annar frambjóðenda leiddi, en í könnun sem kom út fyrir nokkrum dögum var Trump með þriggja prósentustiga forskot á Harris í ríkinu.

Þar af leiðandi er Pennsylvanía rauð á litinn í kjörmannakortinu.

Pennsylvanía er það sveifluríki sem er með flesta kjörmenn í boði. Eins og sjá má á kortinu eru 19 kjörmenn í boði fyrir þann frambjóðanda sem fær flest atkvæði í ríkinu.

Segjum sem dæmi að kannanir reynist réttar að öllu leyti nema að Harris sigri í kosningunum í Pennsylvaníu; þá vinnur hún forsetakosningarnar.

Snéri aftur á vettvang banatilræðis

Báðir frambjóðendur hafa varið miklum tíma í Pennsylvaníu og nú á laugardaginn hélt Trump kosningafund í bænum Butler.

Staðsetningin var engin tilviljun því að 13. júlí hélt hann kosningafund á nákvæmlega sama stað og var þá skotinn í eyrað í banatilræði.

„Eins og ég var að segja,“ sagði hann er hann hóf ræðuna og á stórum skjá var graf sem sýndi fjölda ólöglegra innflytjenda sem hafa komið yfir landamærin við Mexíkó. Sekúndum áður en hann var skotinn í júlí var hann einmitt með þetta graf uppi og hefði hann mögulega verið drepinn hefði hann ekki snúið höfðinu til að líta á skjáinn.

Í upphafi hverrar viku fram að kosningum í Bandaríkjunum mun Morgunblaðið birta yfirlit yfir fylgi frambjóðendanna í sveifluríkjunum og greina helstu breytingar á því.

Þessi ljósmynd var tekin í kjölfar banatilræðisins.
Þessi ljósmynd var tekin í kjölfar banatilræðisins. AFP/Rebecca Droke
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert