Gerðu sér ekki grein fyrir slysahættunni

Hver einasti brunnur á lóðum ÞG verks verður skoðaður eftir …
Hver einasti brunnur á lóðum ÞG verks verður skoðaður eftir að barn féll niður í slíkan brunn á laugardag. Samsett mynd

Starfsmenn ÞG verks fara nú yfir alla fallbrunna á lóðum þar sem fyrirtækið hefur byggt síðustu ár og hyggjast breyta frágangi þeirra.

Örn Tryggvi Johnsen, verkefna- og rekstrarstjóri hjá ÞG verk, segir málið hafa verið sett í algjöran forgang hjá fyrirtækinu, en þriggja ára drengur féll ofan í slíkan brunn við heimili sitt í Urriðaholti í Garðabæ á laugardag. Drengurinn steig á brunnlokið, sem sporðreistist með þeim afleiðingum að hann féll niður að minnsta kosti tvo metra.

Nauðsynlegir vegna lagna

Örn segir brunnana nauðsynlega vegna hönnunar, svo að hægt sé að komast í lagnir sem eru neðanjarðar.

„Við höfum haft þann háttinn á að þar sem brunnar eru á umferðarsvæðum höfum við verið að setja þessi stóru, þungu járnsteyptu lok en á grassvæðum höfum við gjarnan verið að nota stállok og ýmist sett þau undir jarðveg eða haft þau sjáanleg. Það má svo sem segja að sú ákvörðun eða það vinnulag hafi helgast af praktískum sjónarmiðum því það hefur verið gott að menn viti hvar þessir fallbrunnar eru,“ útskýrir hann.

Skipt um lok eða tyrft yfir

Ekki hafi verið hugsað út í að brunnarnir gætu verið slysagildrur fyrir börn.

„Menn hafa kannski ekki endilega gert sér grein fyrir þessum möguleika en við tökum þessu mjög alvarlega og við sendum mannskap okkar út í morgun til að staðsetja, skoða og meta með pípulagnameisturum okkar hvort og hvað á að gera við hvert einasta brunnlok sem er sjáanlegt. Það verður þá ýmist skipt um lok eða brunnarnir verða lækkaðir og tyrft yfir,“ segir Örn.

„Við setjum þetta í forgang til þess að minnka líkurnar á því að svona geti gerst aftur,“ bætir hann við.

Ekki áður fengið slíka ábendingu

Aðspurður segir Örn fyrirtækið ekki áður hafa fengið ábendingu um sambærilegt atvik. „En þegar maður horfir á þetta eftir á er auðvitað klárlega hætta þarna til staðar. Og ég hef grun um að svona brunnar séu víða.“ Nú þegar hafi verið sendar út leiðbeiningar um hvernig eigi að ganga frá slíkum brunnum framvegis. Þá hafi forsvarsmenn fyrirtækisins verið í sambandi við fjölskylduna og húsfélagið.

„Við höfum verið í samskiptum bæði við fjölskylduna og húsfélagið og heyrum ekki annað en að það séu allir sáttir við viðbrögð okkar og vonum bara að svo sé.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert