Icelandair á verði gagnvart fellibylnum Milton

Icelandair.
Icelandair. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Icelandair mun fylgjast grannt með fellibylnum Milton sem stefnir nú óðum að Flórída og kemur til með að ógna þéttbýlum svæðum í ríkinu, þar á meðal einum áfangastaða flugfélagsins, Orlando-borg. Talið er að fellibylurinn nái landi á miðvikudag eða fimmtudag en Icelandair flýgur til Orlando-borgar báða dagana.

Milton varð í dag að fimmta stigs fellibyl og vex mjög hratt.

Í samtali við mbl.is segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, að flogið hafi verið til Orlando-borgar fyrr í dag en að flugfélagið muni fylgjast vel með veðurspá og láti farþega vita ef fellibylurinn komi til með að hafa áhrif á starfsemi þess.

Segir Guðni að notast verði við SMS-skilaboð og tölvupósta til að hafa samskipti við farþega en segir að finna megi helstu samskiptaleiðir einnig í Icelandair-appinu.

Í samskiptum við flugvöllinn og fólkið úti

„Þegar svona er þá er líka gott að minna farþega á að uppfæra og skoða hvort það séu ekki alveg örugglega réttar upplýsingar inni á bókuninni. Rétt netfang og símanúmer,“ segir upplýsingafulltrúinn.

Hann segir áætluð flug vera til Orlando-borgar á miðvikudag og fimmtudag, þá daga sem spáin er sem verst en tekur hann þó fram að staðan geti enn breyst.

„Við fylgjumst bara mjög vel með og erum í samskiptum við flugvöllinn og líka auðvitað okkar fólk Orlando-megin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert