Jón Gnarr „gegnir engu embætti fyrir Viðreisn“

Jón Gnarr er nýgenginn í Viðreisn. Daði Már hefur verið …
Jón Gnarr er nýgenginn í Viðreisn. Daði Már hefur verið varaformaður flokksins frá árinu 2020. mbl.is/samsett mynd

Varaformaður Viðreisnar segir Jón Gnarr fara villur vega þegar hann haldi því fram að útgerðin greiði fyrir aðgang að auðlindum sjávar með auðlindagjaldinu. Hann segir Jón þó frjálsan skoðana sinna.

Þetta kemur fram í samtali mbl.is við Daða Má Kristófersson, sem verið hefur varaformaður Viðreisnar frá 2020. Hann var inntur álits á ummælum sem Jón Gnarr lét falla í Spursmálum á mbl.is þar sem hann fullyrðir að stjórnmálaályktun Viðreisnar frá 28. september væri efnislega röng, þ.e. að sjávarútvegurinn greiddi ekki gjald fyrir aðgengi að sjávarauðlindinni.

Frjáls skoðana sinna

Þrátt fyrir þennan skoðanaágreining segir Daði Jón vera frjálsan skoðana sinna. Hann ítrekar að hann hvorki gegni embætti fyrir hönd flokksins né sé hann kjörinn fulltrúi á hans vegum.

Jón hefur tilkynnt að hann sækist eftir leiðtogasæti flokksins í Reykjavík. Í fyrrnefndu viðtali sagði hann að hann mæti það svo að hann myndi næsta auðveldlega sigra núverandi oddvita flokksins í Reykjavík, þær Hönnu Katrínu Friðriksson og Þorbjörgu Gunnlaugsdóttur. Flokkurinn mun í aðdraganda næstu þingkosninga efna til prófkjörs.

Í síðustu kosningum skipaði Daði Már annað sætið á lista flokksins í Reykjavík suður.

Hér að neðan eru orðaskipti blaðamanns og Daða Más rakin en þar ætti að skýrast hver raunveruleg afstaða Viðreisnar er í þessu máli.

Hver sagði hvað?

„Það er ekki í stjórnmálaályktuninni.“

Það segir hér. Einu aðilarnir sem sigla sléttan sjó eru þau fyrirtæki sem fá sérmeðferð frá stjórnvöldum með ókeypis aðgengi að auðlindum og frelsi undan íslensku krónunni.

„Það ert þú sem bættir við sjávarútvegsfyrirtækjunum.“

Nei, ég spurði Jón út í það hvaða fyrirtæki og hann sagði að þarna væri vísað í sjávarútvegsfyrirtækin.

„Hann skrifaði ekkert í þessari ályktun. Það getur vel verið að hann hafi haldið að þetta væru sjávarútvegsfyrirtækin.“

Þannig að þetta á ekki við sjávarútvegsfyrirtækin?

„Ég sagði það ekki. Ég sagði bara að það stendur ekki að þetta séu sjávarútvegsfyrirtæki. Það varst þú sem bættir því við.“

Jón Gnarr fór mikinn í Spursmálum síðastliðinn föstudag. Hann kemur …
Jón Gnarr fór mikinn í Spursmálum síðastliðinn föstudag. Hann kemur með hvelli inn í Viðreisn. mbl.is/María Matthíasdóttir

Þau borga eitthvað auðlindagjald

Nei, það var Jón Gnarr sem bætti því við. Ég spurði hann hvaða fyrirtækja væri verið að visa til og hann sagði „við vitum það báðir, það er verið að tala um sjávarútveginn“. Þannig að ég gekk út frá því að hann færi með rétt mál. Er það þá bara misskilningur hjá undirrituðum og honum?

„Nei, nei. Ég held að þetta eigi almennt bara við um fyrirtæki sem hafa aðgang að öllum þessum auðlindum. Sjávarútvegsfyrirtækin eru þar undir. Þó þau borgi auðvitað eitthvað auðlindagjald.“

En þarna segir þú að þetta sé ókeypis aðgangur. Er það þá rétt fullyrðing?

„Ég held að almennt þá standi fullyrðingin. Ég sé ekki hvernig þú getur komist að því að það sé ekki, sko“.

 

„Veit ekki alveg eftir hverju þú ert að fiska“

Ef þú borgar 33% af hagnaði fiskveiðanna þá er það ekki ókeypis.

„Ég veit ekki alveg eftir hverju þú ert að fiska, getur þú ekki bara sagt mér það hreint út?“

Ég er aðeins að reyna að átta mig á því hvort að þessi fullyrðing vísi til sjávarútvegsins og hvort að þar sé farið með rétt mál, því miðað við það sem ég les úr lögum um fiskveiðar þá er það ekki ókeypis. Sjávarútvegurinn borgar 33% aukalegan skatt á hagnaðinn.

„Þeir borga 33% af metnum hagnaði útgerðarinnar, sem er ekki það sama og 33% hagnaður af aðgengi þeirra að auðlindum.

Hefur þú lesið lögin?

Hefur þú lesið lögin?“

Já, já. Það er óþarfi að tala niður til mín.

„Ég er ekki að tala niður til þín, ég er bara að spyrja þig. Ég hélt kannski að ég þyrfti að útskýra fyrir þér hvernig þetta er reiknað.“

Ég er búinn að fjalla um þetta árum saman þannig að ég veit hvernig þetta er reiknað, þannig að ég þekki það, já.

„Tekjuhlíðin byggir á skráðu aflaverðmæti. Og skráða aflaverðmætið byggir á reiknireglu sem Verðlagsstofa skiptaverðs notar í uppgjöri milli útgerðar og sjómanna. Það eru ekki eiginlegar tekjur af útgerð. Á þetta hefur ítrekað verið beint. Meira að segja held ég að það sé pólitísk samstaða um að þessar tölur séu ekki réttar því af einhverjum ástæðum hefur Alþingi eða meirihluti á Alþingi alltaf haft sérreglu um uppsjávarveiðar.“

Ég þekki þetta. En spurningin er, er fullyrðingin um að þessi fyrirtæki, sem þá er vísað til, hafi ókeypis aðgang að auðlindum.

Fleiri sem eru með frípassa

„Þessi fyrirtæki og til dæmis fyrirtæki í orkugeiranum, og svo sem víðar, já.“

Orkugeirinn greiðir ekki gjald af þessu tagi, er það ekki rétt skilið hjá mér.

„Jú, jú. Hann greiðir ekki fyrir aðgang að auðlindum.“

En er þá þessi setning í álytkuninni þá vísun í orkufyrirtækin en ekki sjávarútveginn?

„Jú, hún er vísun í öll þau fyrirtæki sem greiða ekki fullt verð fyrir aðgang að auðlindum.“

Nei, bíddu það er ekki að tala um fullt verð og ókeypis er ekki rétt. Ef ég fer inn í Herragarðinn og kaupi mér peysu á 40% afslætti þá er ég ekki að fá hana ókeypis. Ég borga fyrir hana. Hugtakið ókeypis hefur algjörlega skýra merkingu, ekki rétt?

„Já, það er ekki greitt fyrir aðganginn. Það er greitt v eiðigjald en það er bara hlutdeild í umframhagnaði, ekki eiginlegt aðgangsgjald að auðlindinni og þetta má t.d. sjá á því að það eru allskyns reglur um það hverjir þurfa að greiða þetta gjald og hverjir ekki sem er ekki háð aðgengi að auðlindinni heldur t.d. umfangi rekstrar.“

Er aðgangurinn ókeypis eða ekki?

Þannig að útgerðin er með ókeypis aðgang að auðlindinni?

„Þetta er bara viðbótarskattur á útgerðina og hvort hann sé sanngjarn eða ekki það er allt önnur spurning, en borga þau eiginlega fyrir aðgengið, þau gera það í raun og veru ekki.“

Ég er ekki að spyrja um það hvort að sé sanngjarnt eða ekki, ég er bara að velta fyrir mér, sem ég ræddi við Jón Gnarr og hann vill meina að sé rangt með farið af ykkar hálfu, hvort sjávarútvegurinn sé með ókeypis aðgang að auðlindinni eða ekki, sem auðlindagjaldinu er ætlað að gera lögunum samkvæmt, sem þeim er ætlað að gera, ef ég kann að lesa lögin.

„Ég er ekki sammála þér, en allt í lagi.“

Þannig að þú ert á þeirri skoðun að sjávarútvegurinn hafi ókeypis aðgang að auðlindinni?

„Hann greiðir ekki sérstaklega fyrir aðganginn.“

Hvað er hann þá að greiða með auðlindagjaldinu?

„Ég held að þetta sé einhverskonar tilraun til að fanga hluta af umframhagnaði í sjávarútvegi. Að það hafi alltaf verið markmiðið. Og það sést best á því að áhugi löggjafans á því að reikna út hver hagnaður útgerðarinnar af aðgangi að auðlindinni hefur alltaf verið mjög takmarkaður.“

Svo að ég skilji það rétt sem einfaldur blaðamaður, þú ert á þeirri skoðun að sjávarútvegurinn sé með ókeypis aðgang að auðlindinni?

„Hann greiðir ekki fyrir aðganginn. Hvað er það annað, ekki frekar en mörg önnur fyrirtæki í ýmsum öðrum geirum.“

Má vera á þeirri skoðun sem hann vill

Hvað segir það þá um þá ályktun sem Jón Gnarr dregur í þessu máli?

„Um að sjávarútvegsfyrirtækin eru þarna undir?“

Nei, það er augljóst. Þið eruð sammála um það. En hann segir að það sé ekki rétt að aðgangurinn sé ókeypis. Þið eruð greinilega á öndverðum meiði í því.

„Hann má bara vera á þeirri skoðun sem hann vill. Þannig er það bara. Hann gegnir engu embætti fyrir Viðreisn, eða er kjörinn fulltrúi, hans skoðanir eru hans skoðanir.“

Já, væri það öðruvísi ef hann væri kjörinn fulltrúi?

„Nei, sko ég held að…“

Eru menn ekki frjálsir skoðana sinna innan flokksins?

„Lög um þingmenn geri það að verkum að þeir mega bara hafa þá skoðun sem þeir vilja, líka. En þetta er alla vega ekki skoðun Viðreisnar, eins og hún kemur fram í stefnu Viðreisnar.“

Þannig að stefna Viðreisnar er sú að sjávarútvegurinn hafi ókeypis aðgang að…

„Stefna Viðreisnar er að sjálfsögðu ekki að sjávarútvegurinn hafi ókeypis aðgang að auðlindunum. Stefna Viðreisnar er að það sé greitt fyrir allan aðgang að  auðlindum, engin sérmeðferð.“

Viðtalið við Jón Gnarr sem varð kveikjan að þessu máli er aðgengilegt í heild sinni hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert