Ár er liðið frá árás Hamas á Ísrael sem hleypti af stað stríðsátökum sem enn geisa. 90 Íslendingar voru þá staddir í hópferð í Ísrael á vegum ferðaskrifstofunnar Kólumbus.
„Þetta var gríðarleg lífsreynsla fyrir okkur sem vorum þarna og mun lifa í minningunni. Ekki síst hjá mér sem stjórnanda þá er þetta ferð sem er eftirminnilegust,“ segir Sigurður K. Kolbeinsson, eigandi Kólumbus, þegar hann rifjar upp ferðina í spjalli við mbl.is.
„Eðlilega voru eftirköst af þessari reynslu hjá öllum í hópnum og það greip um sig geðshræring. Allir komust heilu og höldnu heim en eftir ferðina fórum við í visst uppgjör og fengum endurgreiddan hluta kostnaðarins. Við greiddum farþegunum þá upphæð sem kom út úr því. Farþegarnir voru fyrst og fremst þakklátir fyrir að komast heilir heim og höfðu ekki farið fram á endurgreiðslu.“
Sigurður hefur ekki komið til Ísrael frá því árás Hamas átti sér stað. „Ferðaskrifstofan hefur haldið sínu striki og er með ferðir víða um heim en Ísrael er ekki á dagskrá hjá okkur eins og er. Ekki á meðan ástandið í Mið-Austurlöndum er eins og það er. Við förum ekki með fólk þar sem öryggi þess er ógnað,“ segir Sigurður og hann er þakklátur stjórnvöldum fyrir að hafa brugðist hratt við þegar íslenski hópurinn þurfti að komast burt frá stríðsátakasvæði.
Dagana á eftir varð ljóst að þessi atburður var stór í sögulegu samhengi.
„Á þessum degi í fyrra gerði maður sér ekki grein fyrir því sem var að gerast. Við komust heim þökk sé ríkisstjórninni og utanríkisþjónustunni sem sendi þotu eftir okkur. Það var ekki einfalt mál. Og það var heldur ekki einfalt fyrir okkur að komast í þotuna. Við fórum flókna leið í gegnum Jórdaníu. Í raun komu fjórir aðilar að heimferðinni. Við, okkar samstarfsaðili í Ísrael, borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins og Icelandair. Þessir aðilar unnu saman að lausn málsins og það gekk upp,“ segir Sigurður sem skipulagði ferðina sem eigandi ferðaskrifstofunnar.