Rúmlega helmingur Grindvíkinga skráð sig út

Skráðum íbúum Grindavíkur hefur fækkað um tæplega 55% síðan eldsumbrotin …
Skráðum íbúum Grindavíkur hefur fækkað um tæplega 55% síðan eldsumbrotin hófust í desember í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg

Samtals hafa 2.044 íbúar sem skráðir voru íbúar í Grindavík 1. desember í fyrra, áður en eldsumbrotin hófust í Sundhnúkagígaröðinni, skráð lögheimili sitt í öðru sveitarfélagi. Skráðir íbúar í Grindavík eru núna 1.676 og hefur þeim fækkað um 54,9% á þessum tíu mánuðum.

Þetta er meðal þess sem sjá má á nýjum tölum Þjóðskrár um fjölda íbúa á landinu. Íbúum fjölgaði í 54 sveitarfélögum en fækkaði í 8 sveitarfélögum á þessu tímabili.

Íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgað um 2%

Í tölunum má sjá að íbúum höfuðborgarsvæðisins fjölgaði um 5.171 á tímabilinu frá 1. desember í fyrra til 1. október. Þar af fjölgaði íbúum Reykjavíkur um 2.321, íbúum Garðabæjar um 911 og í Hafnarfirði um 874. Samtals er íbúafjöldi höfuðborgarsvæðisins 258.877 og nemur fjölgunin samtals 2%.

Á Suðurnesjum fækkaði íbúum um 2,3% og helgast það af fækkun íbúa í Grindavík. Sem fyrr segir fækkaði íbúum í Grindavík um 2.044, en vegna fjölgunar í öðrum sveitarfélögum á Suðurnesjum var heildarfækkunin 741 íbúi. Þannig fjölgaði íbúum um 3,9% í Reykjanesbæ, um samtals 910 íbúa og í Vogum um 14,2% eða um 222 íbúa.

Hlutfallslega mest fjölgun í Skorradalshreppi

Þegar horft er yfir landið í heild var hlutfallslega mesta fjölgun íbúa í Skorradalshreppi, en þar fjölgaði íbúum um 18 íbúa, eða 30,5%. Hlutfallslega fjölgaði íbúum næst mest í Vesturbyggð, eða um 20,8%, en það helgast af því að sveitarfélagið sameinaðist Tálknafjarðarhreppi og fjölgaði íbúum um 249 á tímabilinu.

Sunnlendingum og íbúum Vesturlands fjölgar hlutfallslega mest

Íbúum Suðurlands fjölgaði mest, eða um 3,2%. Voru þeir 36.608 1. desember og hafði fjölgað um 1.151 á síðustu tíu mánuðum. Næst þar á eftir er Vesturland, en íbúum þar fjölgaði um 2,4%. Yfir landið í heild er fjölgunin 1,7%

Rétt er að taka fram að tölur Þjóðskrár gera ráð fyrir að íbúar landsins séu 405.374. Hins vegar metur Hagstofan það svo að íbúar hafi verið 386.970 í lok júní á þessu ári.

Munar því tæplega 20 þúsund á tölum þessara tveggja stofnana.

Í einfölduðu máli á það rætur að rekja í að Þjóðskrá heldur skrá yfir alla þá sem eru skráðir hér á landi með lögheimili, meðan Hagstofan byggir skráningu sína á breiðari grunni opinberra gagna, svo sem skattagögnum og nemendagögnum. Er því fólk sem ekki er með samfélagslegt spor tekið út í tölum Hagstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert