„Skyndilega orðinn kokhraustur kvenhatari“

Jón Gnarr á haustþingi Viðreisnar í lok september.
Jón Gnarr á haustþingi Viðreisnar í lok september. mbl.is/Ólafur Árdal

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur sem gekk nýverið til liðs við Viðreisn, furðar sig á hörðum viðbrögðum sem hann hefur fengið eftir viðtal í Spursmálum fyrir helgi.

„Ég er nú skyndilega orðinn kokhraustur kvenhatari sem ræðst á konur með yfirgangi og frekju. Það tel ég ólíkt mér.“

Jón fjallar um málið í færslu sem hann birti á Facebook. Hann kveðst ekki vera orðinn pólitíkus, „bara búinn að tilkynna ákvörðun og strax farinn að vekja áhuga og jafnvel ugg. Þarf greinilega að muna eftir Miranda-aðvöruninni.“

Tækifærissinni sem reynir að nýta sér meðbyr Viðreisnar

Hann tekur fram að það að hjóla í einhvern merki það sama og að rjúka í einhvern og þýði að ráðast á einhvern.

Vísar Jón þar til ummæla sem hann lét falla í áðurnefndu viðtali þar sem hann er spurður hvort hann sé ekki að fara taka m.a. slag við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, þingmann Viðreisnar.

Jón sagðist aðspurður í þættinum hyggjast etja kappi við konurnar í flokknum í prófkjöri og kvaðst aðspurður vonast til þess að sigra þær nokkuð auðveld­lega. 

„Starfandi þingmaður er búinn að senda mér tóninn líka og snupra mig, segir að ég sé nú ekki fyrsti freki kallinn sem vill fá rauðan dregil og allt gert fyrir sig og gefur líka í skyn að ég sé tækifærissinni sem sé að reyna að nýta mér þann gríðarlega meðbyr sem sé með Viðreisn núna,“ skrifar Jón.

„Kall útí bæ“

Hann tekur fram að hann sé ekki þingmaður eða gegni annarri opinberri valdastöðu. Hvorki forstjóri fyrirtækis né forsvarsmaður samtaka.

„Ég er bara sjálfstætt starfandi listamaður, rithöfundur og leikari og kosningar eru ekki áætlaðar fyrr en eftir 8-10 mánuði. Kannski kall en samt bara kall útí bæ.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert