Staðreyndirnar sláandi og tafarlausra aðgerða þörf

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðreyndirnar sem við blasa í íslenskum menntamálum eru sláandi. Nauðsynlegt er að grípa til tafarlausra aðgerða.

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

Í pistli sem hún skrifar í Morgunblaðið og birtist á föstudag segir hún Ísland standa á krossgötum í málaflokknum.

Allt of löng kyrrstaða að baki

„Menntun er blessunarlega komin á dagskrá eftir allt of langa kyrrstöðu en á meðan rökrætt er um leiðir til úrbóta er veruleikinn þessi,“ skrifar ráðherrann og tekur til eftirfarandi atriði:

  • Nærri þúsund börn bíða eftir leikskólaplássi í Reykjavík.
  • Dæmi eru um leikskóla þar sem 88% starfsfólks eru af fyrstu kynslóð innflytjenda.
  • Árangur íslenskra nemenda í PISA er verri en nokkru sinni áður og árangurinn er undir meðallagi OECD og Norðurlanda í öllum þáttum.
  • Helmingur drengja útskrifast úr grunnskóla án þess að hafa náð grunnfærni í læsi.
  • Námsgögn eru úrelt.
  • Fjórðungur kennara sér ekki fyrir sér framtíð í kennslu.
  • Foreldrar eru ekki upplýstir um stöðu barna sinna í námi.

„Staðreyndirnar eru sláandi og því miður eru þær ekki bara tölur á blaði heldur framtíð barnanna okkar og íslensks samfélags,“ skrifar hún og bætir við að þessari alvarlegu stöðu verði ekki breytt á einni nóttu.

Nauðsynlegt að ráðast strax í aðgerðir

„Aðgerðir eru nauðsynlegar og þær þarf að fara í strax,“ segir Áslaug Arna og leggur til sem hér segir:

  1. Leikskólinn verður á ný að verða forgangsverkefni sveitarfélaganna. Útrýma þarf biðlistunum m.a. með mun meiri einkarekstri og um leið gera þá kröfu til skólanna að börnin séu í meiri mæli í íslensku málumhverfi.
  2. Námið í grunnskólunum þarf á ný að verða markvissara, námskrá þarf að vera skýrari og skerpa þarf á því hvað ætlast er til að börn á ólíkum aldursstigum læri. Námsárangurinn þarf að mæla, ekki bara með matsferlum heldur einnig samræmdum prófum sem sýna nemendum, foreldrum þeirra og skólunum hvar nemendur standa í víðara samhengi. Um leið fáum við mælistiku á hvaða skólar þurfa t.d. aukinn stuðning til að ná betri árangri.
  3. Hugsa þarf námsgögn upp á nýtt og nota þarf gervigreind til að búa til einstaklingsmiðaðri námsgögn en við þekkjum. Til að hin nýja tækni nýtist nemendum til góðs verða kennarar að læra að nota hana með uppbyggilegum hætti.
  4. Á sama tíma og tæknina þarf að nýta betur þarf að skapa samfélagssátt um að útrýma símanotkun í kennslustofum. Samfélagsmiðlar og lítil tengsl við það sem gerist utan þeirra skerðir getu nemenda til að læra.
  5. Bæta þarf stöðu drengja í skólum og móta nám sem betur mætir áhuga þeirra og væntingum. Vandamálið er ekki drengirnir, heldur kerfi sem ekki mætir þörfum þeirra.
  6. Efla þarf kennaranámið og tryggja að kennsla sé eftirsóknarverður starfsvettvangur. Kennarar verða líka að hlusta á ólíkar raddir í samfélaginu um hvernig störf þeirra geta betur mætt væntingum nemenda, foreldra og samfélagsins alls.
  7. Auka þarf samstarf skóla og foreldra þar sem virðing er borin fyrir sjónarmiðum foreldra og kröfum þeirra um auknar og samanburðarhæfar upplýsingar. Ábyrgð foreldra þarf líka að vera skýr.

Ráðherrann tekur fram að framtíð Íslands hvíli á menntun komandi kynslóða.

„Við verðum að grípa til aðgerða til að tryggja að íslensk börn og ungmenni standi jafnfætis jafnöldrum sínum á alþjóðavettvangi. Við skuldum börnunum okkar og framtíðinni að gera miklu betur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka