„Þingflokkur Pírata braut á mér og átta öðrum“

Atli Þór Fanndal segir þingflokk Pírata hafa brotið á sér …
Atli Þór Fanndal segir þingflokk Pírata hafa brotið á sér og átta öðrum úr flokknum. Samsett mynd

Atli Þór Fanndal, sem hætti á dögunum sem samskiptastjóri Pírata, gagnrýnir harðlega flokksforystu Pírata sem var að hnýsast í einkasamtöl hans og fleiri flokksfélaga þegar skjáskot af einkasamtölum láku til forystunnar. 

Segir hann í færslu á Facebook að þingflokkurinn hafi hagað sér eins og rannsóknarréttur yfir honum og flokksfélögum sínum og að þingflokkurinn hafi brotið á bonum og átta flokksfélögum með því að fara yfir skjáskot úr einkaspjalli þeirra á þingflokksfundi. 

Fyrst var greint frá málinu á mbl.is fyrir helgi.

Þingflokkur ekki rannsóknarréttur 

„Vegna ummæla Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Björns Levís Gunnarssonar í fjölmiðlum um framgöngu þingflokks Pírata gagnvart mér og nokkrum Pírötum vil ég koma eftirfarandi á framfæri,“ segir Atli.

„Fólk sem tekur þátt í flokkspólitík á ekki að þurfa að búa við að þingflokkur stjórnmálahreyfingar hnýsist í einkasamtöl flokksfélaga. Þingflokkur er ekki rannsóknarréttur yfir flokksfélögum sínum. Þingmenn eiga ekki að sjá sig sem trúarlögreglu flokka.

Þingflokkur Pírata braut á mér og átta öðrum Pírötum með því að skoða, dreifa og taka fyrir einkasamtöl hópsins um stjórnmálaþátttöku innan Pírata. Fundur um þetta fór fram að morgni 9. september, tveimur dögum eftir aðalfund flokksins. Í kjölfarið var gögnunum dreift meðal „flokkseigenda“ svo að halda mætti áfram að grafa undan réttkjörinni stjórn,“ segir Atli Þór. 

Vísar hann þar til þeirra deilna sem sköpuðust eftir að ný framkvæmdastjórn var valin hjá flokknum.

Niðurstöðurnar komu mörgum innan flokksins í opna skjöldu og úr varð að tveir varamanna sem áður voru í stjórn fengu atkvæðarétt eftir að niðurstöður kjörsins voru kynntar.  

Útskýring á friðhelgi einkalífsins 

„Að það þurfi að standa í því að útskýra það sérstaklega fyrir Pírötum að friðhelgi einkalífs og persónuvernd séu eitthvað sem er ekki bara hægt að svipta fólk út frá geðþótta er það hlægilegasta í þessum farsa öllum, þó þar sé af nógu að taka.

Rétt væri að þingflokkurinn bæði okkur afsökunar og reyndi að bæta fyrir brotin. Því miður hefur þó ekkert komið úr þeim ranni annað en afneitanir og réttlætingar á framkomu sem ég myndi ekki óska neinum,“ segir Atli Þór í færslunni. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka