Þorbjörg Sigríður sækist eftir fyrsta sætinu

Þorbjörg Sigríður í Spursmálum.
Þorbjörg Sigríður í Spursmálum. Ljósmynd/María Matthíasdóttir

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sækist eftir því að verða oddviti flokksins í Reykjavík fyrir næstu alþingiskosningar. 

Þorbjörg Sigríður lýsti þessu yfir í spjalli við Björn Inga Hrafnsson og Ólöfu Skaftadóttur í dag í hlaðvarpsþættinum Grjótkastið. 

Þorbjörg Sigríður var í síðustu kosningum í efsta sætinu hjá Viðreisn í öðru Reykjavíkurkjördæminu. 

Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Besta flokksins, er genginn í Viðreisn og tók þátt í haustþingi Viðreisnar á dögunum. Hann lýsti því yfir í Spursmálum á mbl.is að hann sækist eftir fyrsta sæti í Reykjavík. 

„Frábært að fá mann eins og Jón Gnarr til liðs við flokkinn og ég hef verið mikill aðdáandi hans,“ sagði Þorbjörg Sigríður og bætti við: 

„Ég er oddviti í öðru Reykjavíkurkjördæminu og nú erum við að fara inn í sameiginlegt prófkjör beggja Reykjavíkurkjördæmanna. Ég ætla að sækjast eftir fyrsta sæti í því prófkjöri. Ég sé verkefnið dálítið þannig að í þessu prófkjöri séu flokksfélagar í Viðreisn að velja sér leiðtoga sem getur skilað flokknum inn í ríkisstjórn.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert