Þróa tækni til djúpnýtingar á jarðvarma

Frá upplýsingafundi með ráðherra. Frá vinstri: Arna Pálsdóttir, Hera Grímsdóttir, …
Frá upplýsingafundi með ráðherra. Frá vinstri: Arna Pálsdóttir, Hera Grímsdóttir, Guðlaugur Þór Þórðarson, Terra Rogers, Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, Karen Björk Eyþórsdóttir og Steinar Örn Jónsson. Ljósmynd/Aðsend

Orkuveitan, Transition Labs og Clean Air Task Force (CATF) hafa skrifað undir viljayfirlýsingu um þróun á tækni til djúpnýtingar á jarðvarma og prófunum hér á landi. 

Miklar vonir eru bundnar við að slík nýting geti leitt til aukins orkuöryggis og orkusjálfstæðis víða um heim, að því er segir í tilkynningu.

„Þróun á djúpnýtingu er mikilvægt framfaraskref fyrir nýtingu jarðvarma á heimsvísu sérstaklega á svæðum þar sem jarðvarmi hefur ekki verið nýtanlegur til þessa. Það eru mörg hagstæð skilyrði hér á landi fyrir þróun þessarar tækni sem mun stuðla að hreinni, stöðugri og hagkvæmri endurnýjanlegri orku. Markmiðið með samstarfinu er að flýta fyrir þróun, stuðla að hnattrænu kolefnishlutleysi og verja hugverk sem gætu orðið til,“ segir Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókn og nýsköpunar hjá Orkuveitunni, í tilkynningunni.

Hera segir aðkomu Orkuveitunnar fyrst og fremst felast í því að leggja til þá miklu sérfræðiþekkingu sem fyrirtækið búi yfir til að þróa nýja tækni í hitaupptöku og leiða þróunarverkefni hér á landi. Verkefnið styðji við stefnumarkmið Orkuveitunnar um bætta auðlindanýtingu þar sem möguleiki sé á að nýta tæknina í holur og á auðlindasvæðum Orkuveitunnar sem hingað til hafa ekki verið nýtanleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert