Útilokar ekki framboð fyrir aðra flokka

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ræddi við mbl.is.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, ræddi við mbl.is. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, útilokar ekki framboð í næstu alþingiskosningum. Nokkrir flokkar hafa haft samband við hana um framboð, þar á meðal Samfylkingin.

Spurð hvort hún sé á leið í framboð fyrir Samfylkinguna í næstu Alþingiskosningum kveðst Íris ánægð í sínu starfi.

„En staðan er náttúrulega þannig að það hefur verið haft samband við mig og á þessum tímapunkti er ekkert meira um það að segja,“ segir hún í samtali við mbl.is.

„Ég er ekki búin að taka eina né neina ákvörðun. Fólk tengt Samfylkingunni hefur hvatt mig til að fara í framboð og það hafa einnig fleiri gert sem tengjast öðrum stjórnmálaflokkum.“

Var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins

Íris var um árabil í Sjálfstæðisflokknum þar sem hún gegndi ýmsum trúnaðarstörfum. Var hún meðal annars varaþingmaður flokksins í Suðurkjördæmi kjörtímabilið 2009-2013. 

Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar árið 2018 klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum vegna deilna um hvort halda ætti prófkjör. Í kjölfarið var H-listi bæjarmálafélagsins Fyrir Heimaey stofnaður og varð Íris oddviti listans. 

Flokkurinn hefur nú tvö kjörtímabil í röð myndað meirihluta í Eyjum án aðkomu Sjálfstæðisflokksins og hún var bæjarstjóri í bæði skipti.

Páll Magnússon, fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, var oddviti listans í síðustu sveitarstjórnarkosningum.

Það liggur engin ákvörðun fyrir“

Hún segir að nú séu stjórnmálaflokkar að „klukka fólk“ og það hafi líka gerst fyrir síðustu kosningar.

Útilokar þú að fara í framboð fyrir Samfylkinguna í Suðurkjördæmi?

„Ég ætla ekki að útiloka það að ég skoði landsmálin en það liggur engin ákvörðun fyrir,“ segir Íris.

„Ég er ánægð í mínu starfi og þú veist aldrei hvað framtíðin ber í skauti sér. En það liggur engin ákvörðun fyrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka