Andlát: Þráinn Hafstein Kristjánsson

Þráinn Hafstein Kristjánsson athafna- og veitingamaður lést í Kanada 2. október síðastliðinn, 84 ára að aldri.

Þráinn fæddist 1. ágúst 1940. Foreldrar hans voru Kristján Hafstein Gíslason veitingamaður og Svandís Gísladóttir húsfreyja. Þráinn ólst upp hér á landi og fór snemma að starfa í veitingageiranum, fyrst sem ungur piltur hjá föður sínum og fyrir tvítugt var hann orðinn yfirþjónn á Hótel Borg. Þá hafði hann ferðast ungur til Danmerkur og Englands og náð þar góðum tökum á enskunni.

Hér á landi gat hann sér einnig gott orð í tónlistinni, lék á píanó og sílófón í nokkrum hljómsveitum og tók jafnframt að sér að bóka hljómsveitir fyrir hótel og bíóhús föður síns á Selfossi, var t.a.m. forsprakki að árangri hljómsveitarinnar Dáta.

Þráinn stóð fyrir því að koma frægum hljómsveitum til Íslands, þar á meðal Hollies, djasshljómsveitum og var nálægt því að landa The Rolling Stones. Þá átti hann til að fljúga til New York og sitja á djassklúbbum að hlusta á þá bestu.

Þráinn flutti til Kanada árið 1972. Hann hafði þá ætlað sér að opna veitingastaðinn Round Table í Bandaríkjunum en vegna innflytjendavandamála fór hann til Winnipeg í Kanada og opnaði veitingastaðinn þar árið 1973. Náði Round Table fljótt miklum vinsældum. Síðan opnaði Þráinn veitingakeðjuna Grapes sem mest náði því að vera á átta stöðum í vesturhluta Kanada.

Þráinn var einnig rekstrarstjóri í yfir 243 eldhúsum víðs vegar um Norður-Ameríku, m.a. Swensons, The Golden Spike og Jonathan's and Gringos (Chi Chi's).

Eftirlifandi börn Þráins eru Guðrún Þráinsdóttir, Anna Berta Silk, Kristján Hafstein Kristjánsson og Víkingur Kristjánsson. Barnabörnin eru 13 og barnabarnabörnin átta.

Þráinn var trúrækinn maður og var sjálfboðaliði í kirkju sinni í bænum Steinbach í Manitoba. Þar fer útför hans fram í dag, 8. október.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert