Áslaug hlynnt lögleiðingu veðmála á Íslandi

Áslaug Arna segir að skatttekjurnar mætti nýta í forvarnir og …
Áslaug Arna segir að skatttekjurnar mætti nýta í forvarnir og hjálp til handa þeim sem lenda í fíknivanda vegna veðmála. Samsett mynd

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er hlynnt því að veðmál verði lögleidd hér á landi.

Með þeim hætti mætti innheimta skatt af þeim gríðarlegu upphæðum sem nú þegar fara úr landi í gegnum erlendar veðmálasíður.

Segir hún að þær skatttekjur mætti nýta í forvarnir og hjálp til handa þeim sem lenda í fíknivanda vegna veðmála.

„Ég er fylgjandi því að þetta verði leyfilegt og þá í þeim skilningi að búið verði til regluverk sem samræmist betur þeirri stöðu sem nú þegar er uppi,“ segir Áslaug Arna í samtali við mbl.is.

8,8 milljarðar króna úr landi

Vísar hún þar í þá stöðu sem Viðskiptaráð tók saman á dögunum. Þar kom fram að heildarumfang veðmálamarkaðarins hafi numið um 20 milljörðum króna. Þar af renna 56% spilatekna til innlendra rekstaraðila en 44% til erlendra aðila.

Sé miðað við þær tölur renna um 8,8 milljarðar kr. úr landi til erlendra fyrirtækja sem ekki greiða skatt hérlendis.

„Það er gríðarleg notkun á erlendum veðmálasíðum. Því færi betur á því að láta eins og Íslendingar séu ekki að nýta sér erlendar veðmálasíður, að við byggjum um það umgjörð hér á landi sem myndi skila sér í skatttekjur. Þær mætti aftur nýta í forvarnir og til þess að aðstoða unga drengi sem glíma við spilafíkn,“ segir Áslaug Arna.

Enginn áhugi á frelsismálum í þinginu

Lög um happadrætti voru sett árið 2005 og hafa ekki breyst frá árinu 2011.

„Lögin hafa ekki breyst í mörg ár vegna þess að málaflokkurinn er viðkvæmur. En hann er samt kominn á þann stað að við verðum að búa svo um hnútana að lögin séu í takti við það umhverfi sem við búum við.“

Telurðu einhverjar líkur á því að þetta mál verði á dagskrá hjá núverandi ríkisstjórn?

„Þetta er á þingmálaskrá hjá dómsmálaráðherra. En ég hef ekki orðið þess áskynja að þingið sé skipað með þeim hætti að þar sé meirihluti fyrir nokkurs konar frelsismálum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert