Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, hófu opinbera heimsókn sína til Danmerkur í morgun. Hefð er fyrir því að fyrsta ríkisheimsókn nýs forseta sé til Danmerkur.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra er einnig með í för ásamt opinberri sendinefnd.
Þegar Halla steig á danska grundu við gömlu tollbúðina við Kastellet tóku þau Friðrik 10. Danakonungur og María drottning á móti henni og Birni.
Að baki konungshjónunum stóð röð hesta og á þeim sátu menn úr hirð konungs. Halla byrjaði á því að heilsa Friðriki og tók síðan í hönd Maríu, sem baðst afsökunar á grámóskulegu veðrinu í Kaupmannahöfn. Vel fór á með þeim öllum.
Því næst tóku þau í hendurnar á fólki sem beið við bryggjuna í tveimur röðum og voru nær allir með síma eða myndavél á lofti.
Að því loknu stigu þau upp í hestvagn sem ók með þau á brott.