Engu um að kenna nema handónýtu kerfi

Útför Kolfinnu Eldeyjar fór fram frá Grafarvogskirkju í gær.
Útför Kolfinnu Eldeyjar fór fram frá Grafarvogskirkju í gær. Samsett mynd

Móðir hinnar 10 ára Kolfinnu Eldeyjar Sigurðardóttur, sem ráðinn var bani um miðjan september, segir engu hægt að kenna um dauða hennar nema handónýtu kerfi sem komi fram við fólk eins og það hafi ekki vit á því sjálft hvernig því líður, lítillækki fólk sem leiti sér hjálpar og sendi jafnvel fárveikt fólk heim til sín þar sem það skaði sjálf sig og aðra.

Þetta kemur fram í færslu Örnu Ýrar Sigurðardóttur, sóknarprests í Grafarvogskirkju. Þar vísar hún í minningarorð Ingu Dagnýjar Ingadóttur, móður Kolfinnu, en útför hennar fór fram frá Grafarvogskirkju í gær. Fram kemur í færslu Örnu að Ingu Dagnýju hafi fundist hluti minningarorðanna eiga erindi við samfélagið allt og Arna hafi fengið leyfi til að koma þeim til skila.

„Dauði Kolfinnu kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Kringumstæðurnar eru okkur algjörlega óskiljanlegar og munu líklega alltaf vera það, því það er sennilega mesta ráðgáta lífsins þegar foreldri sem elskar barnið sitt getur samt ekki verndað það fyrir sjálfu sér,“ skrifar Arna meðal annars.

Þarf að forgangsraða upp á nýtt

Því miður sé það alltof oft raunin að fólk fái ekki þá aðstoð sem það þurfi innan geðheilbrigðiskerfisins.

„Við þurfum að fara að horfast í augu við það að geðsjúkdómar draga fólk til dauða alveg eins og krabbamein og hjartasjúkdómar, og við þurfum að aflétta skömminni sem liggur eins og mara yfir fólki með þessa sjúkdóma, og ekki síður eins og mara yfir aðstandendum. Og ef við viljum koma í veg fyrir fleiri voðaverk, þar sem saklaus börn láta lífið, eins og hefur nú gerst þrisvar á þessu eina ári, þá þurfum við sem samfélag að spýta í lófana, þrýsta á stjórnvöld um að efla verulega alla geðheilbrigðisþjónustu, sem og þjónustu við börn sem glíma við erfiðan vanda í skólakerfinu.

Við hljótum öll að vera sammála um að þarna þarf að forgangsraða upp á nýtt, því að hvert mannslíf sem glatast vegna skorts á fjármagni og mannúð í geðheilbrigðiskerfinu er einu mannslífi of mikið.“

„Hún var sólargeisli fjölskyldunnar“

Nú bíði fjölskyldu Kolfinnu það verkefni að fóta sig í nýjum veruleika. Verkefni samfélagsins sé að læra af reynslunni og gera betur. 

„Þar bera stjórnvöld mikla ábyrgð og ég skora á þau að láta dauða Kolfinnu ekki verða til einskis.“

Arna segir Kolfinnu ekki hafa átt langa ævi, en hægt sé að lifa í stuttan tíma og hafa þannig áhrif á heiminn í kringum sig að hann verði betri en áður. Það hafi Kolfinna gert.

„Hún kenndi öllum um hvað ást og kærleikur snýst. Hún var sólargeisli fjölskyldunnar, engillinn sem þau fengu að hafa í 10 ár.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert