Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, segir tímamótasamning sem undirritaður var í dag í Kaupmannahöfn vegna íslensku handrita Árna Magnússonar vera fyrsta skrefið í að fá handritin heim til frambúðar. Eins og staðan er í dag koma sum handrit heim í langtímalán og til rannsókna.
„Við vorum að skrifa undir aukið samstarf um menningararfinn og handritin okkar. Að það verði skipti á handritum og að fleiri handrit komi heim í langtímalán og til rannsókna,“ segir Lilja í samtali við blaðamann mbl.is.
Segir hún að verið sé að setja aukið fé í rannsóknir á menningararfi og einnig til þess að kynna þennan arf beggja þjóða.
Þá sé sérstaklega verið að einblína á ung börn og ungt fólk.
„[...]af því að það er auðvitað mjög tilkomumikið að koma hingað og sjá handritin. Upprunalegu handritin. Að sjá þau á íslensku.“
Segir hún það skipta mestu máli að handritin lifi áfram í hjörtum þjóðarinnar og það sé gert með því að kynna handritin fyrir ungu kynslóðunum heima. Það hafi verið stór áhersla í samningnum.
Samningurinn snýst þá um það að við fáum handritin heim að láni?
„Langtímalán.“
Er það í takt við þær viljayfirlýsingar sem við höfum fengið frá þér um að þú viljir fá handritin heim til frambúðar?
„Þetta er fyrsta skrefið í því og auðvitað er þetta þannig að við þurfum að vinna með vinaþjóðum og það var gert þannig líka á sínum tíma. Ég vil halda í það rannsóknarstarf sem er hér í Kaupmannahöfn en þetta er viðurkenning á því og þeim áhuga sem við höfum á því að bera fulla ábyrgð á þessum menningararfi okkar.“
Þá segir menningar- og viðskiptaráðherrann að það muni taka lengri tíma að fá handritin að fullu leyti heim.
Gerðirðu þeim ljóst að þið vilduð fá handritin heim?
„Það hefur alveg verið ljóst. Þetta er samninganefnd sem er búin að vera að vinna að þessu í nokkur ár á vegum beggja stofnana,“ segir Lilja og bætir við.
„En þetta er tímamótasamningur engu að síður, að við séum að fá fleiri handrit í langtímalán og að við getum rannsakað þau og að þau séu líka til sýnis á Íslandi.“