Halla talar ensku við konungshjónin

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, flytur hér ræðu sína í Kristjánsborgarhöll.
Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, flytur hér ræðu sína í Kristjánsborgarhöll. Ida Marie Odgaard/Ritzau Scanpix

Halla Tómasdóttir forseti er fyrsti forseti Íslands sem flytur kvöldverðarræðu sína í ríkisheimsókn sinni til Danmerkur á ensku. Einnig reiðir hún sig á enskt mál þegar hún ræðir við Friðrik Danakonung og Maríu drottningu.

Hafa allir fyrrverandi forsetar flutt ræðu sína á dönsku að Sveini Björnssyni undanskildum, sem fór aldrei í slíka ríkisheimsókn enda voru þeir Kristján 10. ekki á bestu nótum eftir að Ísland lýsti yfir sjálfstæði á meðan Danir voru enn undir hæl Þjóðverja.

Í kvöld var haldinn hátíðarkvöldverður í Kristjánsborgarhöll í Kaupmannahöfn til heiðurs forsetanum og eiginmanni hennar, Birni Skúlasyni.

Talaði „blandinavísku“ á þjóðþinginu

Í samtali við blaðamann mbl.is í Kaupmannahöfn fyrr í dag sagðist Halla hafa talað „blandinavísku“ þegar hún flutti ræðu á danska þjóðþinginu fyrr í dag.

Sagðist reyndar hafa lítillega rætt við Margréti Þórhildi Danadrottningu á dönsku er þær hittust í morgun en segir Halla að eðlilegustu samskipti hennar og eiginmanns hennar við Friðrik Danakonung og Maríu Danadrottningu fari fram á enskri tungu.

„En það er búin að vera heilmikil danska hérna á milli við starfsfólk og annað, en við höfum svona blandað þessu aðeins í dag,“ segir forsetinn og bætir við:

„Kannski á ég ekki að kalla það sem ég gerði í dag dönsku en heldur kannski blandinavísku.“

Þá átti hún einnig von á að tungumálum yrði blandað í kvöldverðarboðinu sem nú fer fram.

Auk þess fóru kynningar á handritasafni Árna Magnússonar í Hafnarháskóla fyrr í dag fram á ensku.

Ræðan hófst á dönsku, en var að mestu á ensku

Við kvöldverðinn í Kristjánsborg fluttu bæði konungur og forseti ræðu.

Bæði vitnuðu þau í hvort sitt erindi úr Hávamálum sem fjallaði um vináttu.

Ræða Höllu hófst á dönsku, en langstærstur hluti hennar var á ensku – að undanskildu Hávamálserindi sem var að sjálfsögðu á íslensku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka