Heildarmat á náttúruvá mun liggja fyrir 2026

Svandís Svavarsdóttir á kynningarfundi um skýrsluna í síðustu viku.
Svandís Svavarsdóttir á kynningarfundi um skýrsluna í síðustu viku. mbl.is/Karítas

Heildarúttekt á náttúruvá á Reykjanesskaga er nú í vinnslu hjá Veðurstofunni og mun ekki liggja fyrir fyrr en árið 2026. Slíkt gagn þarf að liggja fyrir til grundvallar fyrir næstu ákvarðanir sem tengjast mögulegri uppbyggingu Hvassahraunsflugvallar og flutningi innanlandsflugs þangað.

Þetta segir Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra. Í síðustu viku voru kynntar niðurstöður svokallaðrar Hvassahraunsskýrslu um hentugleika flugvallargerðar í Hvassahrauni. Niðurstaða starfshóps sem vann skýrsluna voru að veðurfarslega væri ekkert því til fyrirstöðu að fara í uppbyggingu flugvallarins. Þá væri flugvallarsvæðið að mestu utan skilgreindra eldstöðvakerfa og líkur á gosupptökum á svæðinu væru hverfandi. Var lagt til að tekið yrði frá svæði undir flugvöllinn og farið í frekari rannsóknir og flugprófanir á svæðinu.

Hættumatið byggði á stöðunni fyrir eldgosin

Hins vegar hefur verið bent á að í viðauka með skýrslunni sem ber nafnið „Hættumat vegna eld­gosa og jarðskjálfta“ að þá kemur eftirfarandi fram:

„Að lok­um skal tekið fram að for­send­ur í þess­ari skýrslu eru byggðar á stöðu þekk­ing­ar áður en eld­virkni gerði vart við sig á ný á Reykja­nesskaga og gos­in í Fagra­dals­fjalli árið 2021 og 2022 áttu sér stað. Þær for­send­ur gera ráð fyr­ir því að afar lang­ur tími (600–800 ár) líði á milli til­tölu­lega styttri (400–500 ár) tíma­bila eld­virkni á Reykja­nesskaga. Á milli tíma­bila eld­virkni er jarðskjálfta­virkni á brota­belt­inu ráðandi.“

Ný heildarúttekt þarf að liggja fyrir

Svandís segir að nú sé unnið að heildarúttekt á náttúruvá á svæðinu sem Veðurstofan vinni að. Niðurstöður þeirrar vinnu muni hins vegar ekki liggja fyrir fyrr en árið 2026. „Það gagn þarf að liggja fyrir til grundvallar fyrir næstu ákvarðanir,“ segir Svandís og bætir við að í þeirri skoðun verði þau eldsumbrot og jarðskjálftar sem hafi staðið yfir undanfarin ár undir.

Hún segist hins vegar ekki vilja útiloka þessa leið fyrir innanlandsflug og þyrluflug. „Ég held að það sé afar mikilvægt að við lokum ekki á þennan möguleika og höldum því opnu að taka frá svæði.“

Vill ráðherrafund um skýrsluna

Formaður stýrihópsins er nú erlendis, en Svandís segir að strax og hann komi aftur heim telji hún að halda ráðherrafund um skýrsluna, líkt og gert sé með svona sértæk mál.

Svandís segir einnig að þegar komi að málefnum flugvallarins þurfi að horfa fram til langs tíma og að ekki sé um málefni eins kjörtímabils að ræða. „Við þurfum að ná þessu upp úr spennutreyju kjörtímabila. Þó að allir væru til í þetta [að byggja upp flugvöll í Hvassahrauni] værum við samt að tala um 15-20 ár,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert