„Hvers vegna“ að kjósa í vor?

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur að það muni leysa sig sjálft …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra telur að það muni leysa sig sjálft hvenær gengið verði til næstu kosninga. mbl.is/Karítas

Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa ekki rætt saman um það hvenær best sé að ganga til kosninga. Gera má ráð fyrir því að á næstu vikum eða mánuðum komi í ljós hvenær gengið verði til kosninga.

Þetta segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is að loknum fundi formanna stjórnarflokkanna. 

„Við höfum ekki tekið umræðu á milli formannanna um það hvenær best sé að ganga til kosninga. Ég er með frekar einfalda sýn á þetta. Hún er sú að við höfum skyldu til þess að vinna að framgangi okkar mála, sem stjórnin hefur komið sér saman um,“ segir Bjarni.

„Muni svolítið leysa sig sjálft“

Gerirðu ráð fyrir því að það verði sagt á næstu vikum eða mánuðum hvenær gengið verður til kosninga?

„Já, ég geri ráð fyrir því.“

Erum við að tala um vikur eða mánuði?

„Ég held að, ef ég á að segja alveg eins og er, þá held ég að það muni svolítið leysa sig sjálft. Ég held að það muni gera það. Ég held að það verði ekki mikil pressa á að hlaupa í kosningar ef ríkisstjórnin klárar verkefnin sín og öfugt.“

Framgangur í málefnum eigi að ráða úrslitum um tímasetningu

Fé­lags­menn Vinstri grænna samþykktu álykt­un á lands­fundi flokks­ins um að stjórn­ar­sam­starfið sé að nálg­ast leiðarlok og að stefna eigi að því að ganga til kosn­inga með vor­inu.

Bjarni segir að framgangur í efnahagsmálum, útlendingamálum og orkumálum eigi að ráða úrslitum um það hvenær kosið er.

„Þegar menn segja að það eigi að kjósa í maí þá spyr ég bara, hvers vegna?“ segir Bjarni.

Hann segir að þeir sem tali um kosningar í vor beri það fyrir sig að það sé gott fyrir gangverk lýðræðisins, en honum hefur þó ekki þótt slæmt að kjósa að hausti til.

„Hitt er miklu meiri spurning, hvort að ríkisstjórn hefur burði til þess að klára verkefnin sín og vinna í þágu þjóðarinnar. Það sem hefur auðvitað verið mjög krefjandi fyrir þessa ríkisstjórn er það að verkefnin sem hún hefur til að fást við hafa breyst mjög mikið frá því við fengum umboð frá kjósendum árið 2021 og settum saman stjórnarsáttmála.

Við erum að fást við allt annars konar verkefni en þá blöstu við okkur. Það er það sem er krefjandi, sérstaklega ef flokkarnir eru með ólíka sýn á lausnirnar,“ segir Bjarni.

Formenn stjórnarflokkanna funduðu

Formenn stjórnarflokkanna funduðu saman að ríkisstjórnarfundi loknum í tilefni þess að Svandís Svavarsdóttir er nú orðinn formaður Vinstri grænna.

Bjarni segir að á fundinum hafi verið fjallað um stöðuna í þinginu, helstu mál stjórnarinnar og hvernig ríkisstjórnin geti „skilgreint þau mál sem mestu skiptir að fái afgreiðslu á þessu þingi.“

Honum finnst ganga vel að ná niður verðbólgu og fagnar því að vextir hafi verið lækkaðir. Það skiptir að hans mati öllu máli fyrir heimili og fyrirtæki landsins að sú þróun haldi áfram.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert