Kannabisræktun í jarðhýsi á Suðurlandi

Umfangsmikil kannabisræktun var stöðvuð í Landssveit á Suðurlandi. Mynd úr …
Umfangsmikil kannabisræktun var stöðvuð í Landssveit á Suðurlandi. Mynd úr safni frá kannabisræktun hér á landi. Ljósmynd/Lögreglan

Sex hafa verið ákærðir fyrir umfangsmikla kannabisræktun á Suðurlandi, en upp komst um ræktunina í maí árið 2022. Samtals fundust á sextánda kíló af kannabisefnum eða kannabislaufum, auk fjölda planta og fullkominn ræktunarbúnaður.

Einn hinna ákærðu áður dæmdur í saltdreifaramálinu

Ræktunin átti sér stað í jarðhýsi við sumarhús í Landssveit. Er sumarhúsið í eigu konu á sjötugsaldri sem er meðal ákærðu í málinu. Þá er einnig sonur hennar ákærður sem og fjórir aðrir á svipuðum aldri og sonurinn. Meðal þeirra er einn maður sem hlaut dóm í saltdreifaramálinu svokallaða, en í því var mikið magn amfetamíns haldlagt í einu stærsta fíkniefnamáli sem komið hefur upp hér á landi.

Í málinu sem nú hefur verið ákært í og aðalmeðferð hefst í á morgun, eru öll sex ákærð fyrir ræktunina í jarðhýsinu. Aðstöðunni er ekki lýst í þaula, en hins vegar má gera sér grein fyrir umfanginu því farið er fram á upptöku á miklu magni ræktunarbúnaðar. Þar á meðal eru 45 gróðurhúsalampar, 16 þurrkgrindur, 53 straumbreytar, 7 viftur, 2 kolasíur, 3 hitablásarar, 22 vatnsdælur, skilvinda og rakatæki.

11,85 kg af maríhúana

Í jarðhýsinu fundust 3.445 gr af kannabislaufum, um 1.400 gr af maríhúana og 91 kannabisplanta. Tekið er fram í ákæru málsins að fólkið hafi um nokkurt skeið ræktað þar plöntur.

Þá lagði lögregla hald á 9.660 gr af maríhúana við leit í nálægu sumarhúsi og 780 gr af maríhúana á einum hinna ákærðu þegar hann ætlaði að afhenda það öðrum sem ákærður er í málinu. Samtals er því um að ræða um 11,85 kg af maríhúana, 3,4 kg af kannabislaufum og 91 kannabisplanta.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert