Kennarar greiða atkvæði um verkfall

Ekki liggur fyrir hvaða skóla um ræðir. Verður ekki greint …
Ekki liggur fyrir hvaða skóla um ræðir. Verður ekki greint frá því nema aðgerðirnar verði samþykktar. mbl.is/Hari

Kennarar greiða nú atkvæði um hvort að grípa eigi til verkfallsaðgerða í átta skólum síðar í þessum mánuði. Verði verkfallsboðunin samþykkt hefjast verkföllin á miðnætti 29. október. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Kennarasambands Íslands.

Atkvæðagreiðslan hófst í dag og lýkur á fimmtudag.

Um er að ræða verkföll í fjórum leikskólum, þremur grunnskólum og einum framhaldsskóla.

Ekki hefur verið greint frá hvaða skóla um ræðir. Verður það ekki gert nema kennarar samþykki verkfallsboðunina. Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, segir við Rúv að fleiri skólar muni í framhaldinu greiða atkvæði um verkfall.

Áformað er að verkfallsaðgerðirnar verði tímabundnar í grunnskólum og framhaldsskólum en ótímabundnar í leikskólum.

Kjaradeilan hjá ríkissáttasemjara

Kjarasamningar aðildarfélaga KÍ sem semja við sveitarfélögin hafa verið lausir síðan í maí. Félög framhaldsskólans, FF og FS, semja aftur á móti við ríkið. Hafa framhaldsskólakennarar verið samningslausir síðan í mars.

Í tilkynningunni segir að kjaradeila aðildarfélaga KÍ liggi á borði ríkissáttasemjara. Samband íslenskra sveitarfélaga vísaði deilunni til embættis ríkissáttasemjara 24. september. Félög framhaldsskólans vísuðu sinni kjaradeilu til ríkissáttasemjara 26. september.

Ríkissáttasemjari boðaði samningsaðila til fundar í gær. Næsti fundur hefur verið boðaður á morgun. 

Ekki náðist í Magnús Þór Jónsson við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert