„Það sem hefur helst staðið upp úr í dag er hversu hlýjar móttökur við höfum fengið hvert sem við höfum farið,“ segir Halla Tómasdóttir forseti Íslands, sem er í sinni fyrstu opinberu heimsókn sem forseti Íslands í Danmörku.
Blaðamaður mbl.is í Kaupmannahöfn náði tali af Höllu fyrr í dag þar sem Halla sagði konungshjónin, þau Friðrik Danakonung og Maríu Danadrottningu, hafa tekið einstaklega vel á móti sér og eiginmanni sínum Birni Skúlasyni.
„Okkur líður eiginlega eins og við séum að hitta góða vini. Það er alveg einstakt.“
Segir Halla heimsóknina vera mikið ævintýri og að konungshjónin hafi reynst henni og eiginmanni hennar stoð og stytta.
„Við höfum hlegið mikið og höfum deilt mörgum sameiginlegum áhugamálum og lært mikið í dag líka.“
Hver eru þessi sameiginlegu áhugamál?
„Ég hef nú sagt frá því nú þegar að við Friðrik fæddumst á sama ári og ætli það móti mann ekki eitthvað. Við erum bæði fædd á hinu sögulega ári 1968 þannig að við höfum verið samhliða á svipuðum tímum og ýmislegt sem við höfum verið að ræða í kringum það,“ segir Halla og heldur áfram.
„Hann hefur mikinn áhuga á heilbrigði, hreyfingu og næringu. Hann stendur fyrir hlaupi konungsfjölskyldunnar einu sinni á ári og þetta er mikið áhugamál hjá eiginmanni mínum og við almennt viljum reyna að setja heilbrigt Ísland á kortið. Þannig það hefur verið margt sem við höfum rætt þar.“
Halla segir það hafa staðið upp úr í dag hversu hlýjar móttökur hún og eiginmaður hennar hafi fengið hvert sem þau fóru þó Danir hafi að vissu afsakað veðrið við hvert fótamál.
„Það er búinn að vera smá suddi í eftirmiðdaginn. En okkur hefur fundist við bara vera heima í slíku veðri og höfum þakkað þeim fyrir að bjóða okkur upp á Íslenskt veður.“
Aðspurð segist hún hlakka mikið til þess á morgun að eiga samtal í Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn (CBS) þar sem rektor skólans verður mættur ásamt rektor Háskólans í Reykjavík.
Segir Halla að þar verði átt samtal um hvernig breyta þurfi nálgun í menntunarstarfi til þess að útskrifa nemendur og uppfæra eldri nemendur þannig að þeir séu í stakk búnir til að takast á við nýja tíma og geta leitt þær umbreytingar sem þurfi að leiða.
Segir hún að þá muni koma saman margir Danir og Íslendingar sem starfa við skólann og verður opnað á opið samtal við nemendur, kennara og aðra gesti í sal.
„Þetta finnst mér skemmtilegt að gera, að eiga samtal, og ekkert endilega að ég hafi öll svörin en við ætlum allavega að velta því upp hvort að menntastofnanir séu að halda í þá framtíð sem að bíður okkar og undirbúa nemendur á öllum aldri fyrir þá framtíð,“ segir forsetinn.