Margrét Þórhildur hitti Höllu: Bað að heilsa Vigdísi

Margrét Þórhildur Danadrottning.
Margrét Þórhildur Danadrottning. AFP/Bo Amstrup

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, og Björn Skúlason, eiginmaður hennar, hófu opinbera heimsókn sína til Danmerkur í morgun og lá leið þeirra meðal annars til Amalienborgarhallar þar sem þau mættu óvænt sjálfri Margréti Þórhildi Danadrottningu, en þar sást hún í fyrsta skipti opinberlega síðan hún meiddist illa seint í september.

Margrét brotnaði á vinstri hendi auk þess sem hálsliðir hennar urðu fyrir hnjaski er hún hrasaði og datt í Friðriksborgarhöllinni.

Bað fyrir hlýjar kveðjur

Segist Halla hafa hitt Danadrottninguna í morgun og drukkið með henni kaffibolla í Amilienborgarhöllinni.

„Það var ótrúlega skemmtileg stund að fá að hitta þessa merkilegu og skemmtilegu konu,“ segir forsetinn og tekur jafnframt fram að Margrét hafi verið ótrúlega brött miðað við meiðslin sem hún hlaut í september.

Þá hafi Margrét borið fyrir kveðju til fyrrum forseta íslensku þjóðarinnar, Vigdísar Finnbogadóttur.

„Ég bar henni hlýjar kveðjur frá Vigdísi Finnbogadóttur og hún bar fyrir hlýjar kveðjur til baka til Vigdísar en á milli þeirra tveggja ríkir og ríkti alla tíð einstakur vinskapur.“

Margrét kom mörgum á óvart er hún lét sjá sig …
Margrét kom mörgum á óvart er hún lét sjá sig fyrr í dag við Amalienborgarhöll. Bo Amstrup/Ritzau Scanpix

Vonast eftir svipuðum vinskap við Friðrik

Spurð um hvort hún sjái fram á að mynda svipaðan vinskap við Friðrik Danakonung segist Halla vona það.

„Það skiptir máli að vinskapur og þetta djúpa traust sem hefur verið á milli Dana og Íslendinga og þessi mikla saga og menningarlegu tengsl og önnur tengsl séu virkjuð til góðs,“ segir forsetinn og bætir við.

„Ég heyri það hvert sem ég fer á þessum fyrsta degi, og við höfum farið víða, að það er mikill áhugi á að dýpka okkar samband enn frekar og leita tækifæra til að vinna saman á ýmsum vettvöngum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka