Orkusalan hefur keypt Forsæludal

Vatnsdalur í Austur-Húnavatnssýslu.
Vatnsdalur í Austur-Húnavatnssýslu. mbl.is/Árni Sæberg

Orkusalan hefur keypt Forsæludal en jörðin er fremsta byggða ból í Vatnsdal í Austur-Húnavatnssýslu. Hefur fyrirtækið í hyggju að kanna möguleika til raforkuframleiðslu með virkjun vatnsafls í landi jarðarinnar, en Vatnsdalsá rennur þar um garð. Þetta staðfestir Magnús Kristjánsson forstjóri Orkusölunnar í samtali við Morgunblaðið. Aðspurður segir hann kaupverðið trúnaðarmál.

Skoða fýsileika

Kaupin á Forsæludal gengu í gegn í síðasta mánuði og segir Magnús að áætlanir félagsins varðandi nýtingu jarðarinnar séu ekki nákvæmlega skilgreindar en virkjunarkostur í vatnsafli sé innan marka jarðarinnar og verði fýsileiki hans skoðaður nánar.

„Almennt erum við að skoða þá kosti sem eru í stöðunni til að tryggja orkuöflun félagsins,“ segir Magnús, spurður hvort fyrirtækið hafi augastað á fleiri jörðum.

„Við erum að skoða kosti víða um land og hvaða tækifæri eru í orkuöflun félagsins, hvort sem það eru jarðir eða kaup á vatnsréttindum í ám til orkuöflunar fyrir almennan raforkumarkað á Íslandi,“ segir hann.

Orkusalan kaupir í heildsölu um 75% þeirrar orku sem fyrirtækið selur, en fjórðungur raforkunnar er framleiddur í vatnsaflsvirkjunum sem félagið á sjálft.

Dalsfoss í Forsæludal er einn margra fossa í Vatnsdalsá.
Dalsfoss í Forsæludal er einn margra fossa í Vatnsdalsá. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Eiga sex virkjanir

Virkjanirnar eru sex talsins, en þær eru Rjúkandavirkjun í Ólafsvík, Skeiðsfossvirkjun í Fljótum, Búðarárvirkjun á Reyðarfirði, Smyrlabjargarárvirkjun á milli Hafnar í Hornafirði og Jökulsárlóns, Lagarfossvirkjun og Grímsárvirkjun sem eru á Héraði. Samanlagt uppsett afl virkjananna er um 37 megavött.

Árið 2018 fékk Samband sveitarfélaga á Norðurlandi vestra verkfræðistofuna Mannvit til að leggja mat á hagkvæmustu virkjanakostina á Norðurlandi vestra og komu Vatnsdalsá og Skarðaá í Skagafirði best út þeirra 82 kosta sem til skoðunar voru. Þegar niðurstöðurnar voru kynntar kom fram að kostirnir hefðu aðeins verið kannaðir á loftmyndum, kortum og öðrum fyrirliggjandi upplýsingum, svo sem rennslismælingum, en ekki hefði verið farið á vettvang. Ekki var gert ráð fyrir miðlunarlónum, en dæmið reiknað út frá rennslisvirkjunum.

Svo sem kunnugt er er Vatnsdalsá ein fengsælasta laxveiðiá hér á landi og fjölsótt, bæði af innlendum og erlendum veiðimönnum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert