Ráðherra segir þróunina raunverulegt áhyggjuefni

Áhugi ís­lenskra barna á lestri hef­ur hrunið frá aldamótunum.
Áhugi ís­lenskra barna á lestri hef­ur hrunið frá aldamótunum. Samsett mynd

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, mælti í gær fyrir þingsályktun um bókmenntastefnu til ársins 2030.

Ályktuninni er ætlað að styðja við útgáfu og aðgengi að fjölbreyttu íslensku efni og styrkja þannig stöðu íslenskrar tungu, meðal annars með því að stuðla að auknum og bættum lestri með sérstakri áherslu á börn og ungmenni.

Morgunblaðið greindi frá því í gær að áhugi íslenskra barna á lestri hefði hrunið frá aldamótunum. Árið 2000 sögðust 33% nemenda í 10. bekk aðeins lesa þegar þau þyrftu þess en í dag er hlutfallið um 60%, eða jafnvel meira.

Undanfarin ár hefur börnum fækkað sem segja lestur eitt af sínum helstu áhugamálum og þeim fjölgað sem telja lestur vera tímasóun.

Þurfum að takast á við minnkandi lestur og lesskilning

„Áhugi barna á lestri hefur minnkað mikið síðan árið 2000 og allt umhverfi þeirra breyst með tilkomu tæknibreytinga. Við sem samfélag þurfum að leita jafnvægis, þ.a. nýta okkur tæknina en örva áhuga á lestri,“ skrifar Lilja á Instagram þar sem hún greinir frá þessu.

„Minnkandi lestur og lesskilningur er raunverulegt áhyggjuefni sem þarf að takast á við með margs konar hætti.“

Hún segir góða samvinnu við helstu haghafa í bókmenntasamfélaginu vera að baki þingsályktuninni.

„Menning og tungumálið eru samofin. Það er mikilvægt að halda því á lofti gagnvart ungu fólki. Margt hefur áunnist á undanförnum árum en það eru klárlega tækifæri til þess að gera betur. 

Íslenskar bókmenntir skipta þar lykilmáli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert