Samtali um útlendingafrumvörp ekki lokið

Guðrún vill leggja fram frumvörpin þrátt fyrir andstöðu Svandísar. Bjarni …
Guðrún vill leggja fram frumvörpin þrátt fyrir andstöðu Svandísar. Bjarni segir að samtalinu um frumvörpin sé ekki lokið. Samsett mynd/Kristinn/Eyþór/Eggert

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að draga þurfi verulega úr kostnaði við öryggiseftirlit með hælisleitendum. Hann segir að enn eigi eftir að klára samtal um útlendingafrumvörp dómsmálaráðherra, en Svandís Svavarsdóttir hefur sagt að henni hugnist ekki frekari breytingar á útlendingalögum.

„[Við] kláruðum mjög mikilvægar breytingar á þinginu í vor og höfum séð mjög miklar breytingar á þessu ári í brottvísunum, í færri umsóknum um alþjóðlega vernda og höfum væntingar til þess að kostnaðurinn muni í kjölfarið lækka. Dómsmálaráðherra hefur boðað frekari aðgerðir og það skiptir máli að fylgja þessu eftir,“ segir Bjarni.

Svandís, nýkjörin formaður Vinstri grænna, hefur aftur á móti sagt að hún telji að frum­vörp um frek­ari breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­un­um eigi ekki er­indi inn á þingið.

Lagabreytingar ekki það eina í stöðunni

Sjálf hefur Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sagst vera ósammála Svandísi og hyggst hún leggja útlendingafrumvörpin sín fram á þingvetrinum.

Heldurðu að hún muni leggja frumvörpin fram þrátt fyrir þetta?

„Við eigum eftir að klára það samtal. Það er ekki þannig að eina sem við getum gert frekar í hælisleitendamálum sé að samþykkja tiltekin frumvörp en ég tel hins vegar að þetta séu góðar hugmyndir að lagabreytingum frá ráðherranum,“ segir Bjarni og heldur áfram:

„Það er margt fleiri hægt að gera. Við erum til dæmis með búsetuúrræði fyrir hælisleitendur á allt of mörgum stöðum í dag með allt of miklum tilkostnaði.“

Frumvörpin sem eru á þingmálaskrá Guðrúnar snúa m.a. að brottfaraúrræði og að heimild verði veitt til að þess að aft­ur­kalla vernd hjá ein­stak­lingi sem hef­ur hlotið vernd í ís­lensku sam­fé­lagi en ger­ist sek­ur um al­var­leg­an glæp. 

Þurfum að draga stórlega úr þessum kostnaði“

Kostnaður við hús­næðisúr­ræði Vinnu­mála­stofn­un­ar fyr­ir hæl­is­leit­end­ur nam ríf­lega 4,9 millj­örðum króna á síðasta ári. Þar af nam kostnaður við ör­ygg­is­gæslu rúmlega 2,5 milljörðum króna.

„Ein ástæða þess að öryggiseftirlit með búsetuúrræðunum er jafn kostnaðarsamt og raun ber vitni er vegna þess hve úrræðin eru mörg. Við þurfum að draga stórlega úr þessum kostnaði. Það getum við gert þegar hælisleitendum fækkar og við erum með hugmyndir að því að vera með ákveðna kjarna og fækka þeim. Þar með getum við dregið úr ýmsum kostnaði. Þetta er dæmi um mál sem kallar ekki á lagabreytingu,“ segir hann. 

Hann segir líka hægt að auka skilvirkni í kerfinu og nefnir hann í því samhengi notkun gervigreindar til að hraða málsmeðferðartíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert