Símabannið haft mikil áhrif á skólastarfið

Valdimar segir bæði foreldra og nemendur hafa tekið vel í …
Valdimar segir bæði foreldra og nemendur hafa tekið vel í símabannið. Samsett mynd

Símabann hefur verið við lýði í Öldutúnsskóla frá því í ársbyrjun 2019 og hefur það gefið góða raun að sögn skólastjóra. Skólabragurinn og menningin hefur breyst til hins betra og meiri vinnufriður er í kennslustundum.

Skólastjórinn Valdimar Víðisson segir hins vegar ekki hafa verið tekið sérstaklega saman hvort símabannið hafi haft jákvæð áhrif á læsi og lestraráhuga, en Öldutúnsskóli hafi þó skorað töluvert yfir meðaltali þegar kemur að áhuga á læsi.

„Við höfum ekki tengt það við símana beint en það væri áhugavert að skoða það sérstaklega. Við sjáum þetta hins vegar í bættri skólamenningu og neteinelti hefur minnkað verulega á skólatíma með þessu og er varla mælanlegt.“

Meiri skjátími dragi úr áhuganum

Greint var frá því í Morgunblaðinu í gær að nemendur sem eyða meiri tíma í snjallsímum hafa minni áhuga á lestri en þeir sem nota símana lítið eða ekkert.

Lestraráhuginn fer sífellt hraðar dvínandi eftir því sem nemendur eyða meiri tíma í tækjunum.

Um er að ræða niðurstöður rannsóknar Kristjáns Ketils Stefánssonar, lektors við kennslufræði á menntavísindasviði Háskóla Íslands. Rannsóknin byggir á gögnum frá ríflega fimmtán þúsund nemendum í 6. til 10. bekk í 120 grunnskólum víðs vegar um landið.

Allt virðist benda til að meiri skjátími dragi úr áhuga barna á lestri.

Bannið undirbúið í heilt ár

Kristján Ketill telur ekki endilega skynsamlegt að hvetja til allsherjarbanns við farsímum í skólum, heldur frekar innleiða einhvers konar símafrí.

Öldutúnsskóli hefur þó farið þá leið að banna notkun síma alfarið á skólatíma. Símabannið er við lýði í öllum árgöngum skólans, frá 1. og upp í 10. bekk og segir Valdimar ekki standa til að falla frá því.

Hann segist gera sér grein fyrir því að símar geti verið öryggistæki og að börnin noti þá til dæmis eftir að skóladegi lýkur til að ná í foreldra sína. „Síminn er því ekki bannaður í húsnæðinu en notkun hans er ekki heimil á skólatíma,“ útskýrir hann.

Bæði nemendur og foreldrar hafa tekið vel í símabannið, enda var það undirbúið í heilt ár í samstarfi við stjórn nemendafélagsins, skólaráð og foreldra, að sögn Valdimars.

„Við gerðum ýmislegt á móti, opnuðum til dæmis nýtt rými fyrir unglingana sem þeir hönnuðu, þannig það var ekki nein óánægja með þetta á sínum tíma og hún hefur ekki komið upp. Menn vita bara að notkun síma er ekki heimil og ef krakkarnir eru að stelast og starfsmaður er nálægur þá eru þau mjög fljót að bregðast við og vita að þetta er ekki leyfilegt.“

Lestraráhuginn fer sífellt hraðar dvín­andi eft­ir því sem nem­end­ur eyða …
Lestraráhuginn fer sífellt hraðar dvín­andi eft­ir því sem nem­end­ur eyða meiri tíma í tækj­un­um. mbl.is/Hari

Mega ekki taka síma af nemendum

Spurður hvort símar séu teknir af nemendum, fari þeir ekki eftir reglum, segir Valdimar það ekki gert enda hafi skólinn ekki heimild til þess.

„Við höfum hins vegar heimild til að óska eftir því að síminn verði heima og að foreldrarnir passi að hann komi ekki í skólann. En almennt gildir það sama um brot á símareglum og brot á öðrum reglum. Það fer eftir ákveðnu ferli, eftir ákveðinn tíma er fundur með foreldrum og svo framvegis,“ segir Valdimar.

„Ef þetta er vandamál hjá einhverju barni þá hefur þetta verið unnið með foreldrum og í einhverjum tilfellum hafa símar þurft að vera heima í einhvern tíma og eitthvað svoleiðis,“ bætir hann við.

Eyða miklu minni tíma í símanum

Niðurstöður Kristjáns Ketils leiddu einnig í ljós að meirihluti barna í þremur efstu bekkjum grunnskóla eyðir klukkutíma á dag eða meira í snjallsíma á skólatíma. Jafnvel eru dæmi um að börn eyði allt að þremur klukkustundum á dag í símanum á skólatíma.

Valdimar segir að í Skólapúlsinum komi það skýrt fram hvað börnin í Öldutúnsskóla, og öðrum skólum þar sem símabann er við lýði, eyði miklu minni tíma í símanum en jafnaldrarnir, eða undir 30 mínútum á dag. Í Skólapúlsinum svara börnin sjálf spurningum um skólastarfið, líðan, virkni í námi og fleira og er upplýsingum safnað saman án þess að persónuupplýsingar komi fram.

„Þetta hefur lagað og bætt skólabraginn hjá okkur og það er miklu betri vinnufriður í kennslustundum. Krakkarnir vita hverjar reglurnar eru, ef þau eru að stelast í símann þá eru ákveðin viðurlög við því, þannig þetta hefur komist í menninguna hjá þeim að síminn er ekki kennslutæki.“

Krakkarnir tali meira saman og unglingarnir nýti nýja rýmið til að spila borðtennis, pool og fleira, hlusti á tónlist og tefli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert