Telja sig ekki nógu vel búna undir nýtt skólastig

Þátttakendur á Samfés og Landsþingi ungs fólks voru um 450.
Þátttakendur á Samfés og Landsþingi ungs fólks voru um 450. LjósmyndAðsend

Stór hópur unglinga telur sig ekki nægilega vel búinn undir nýtt skólastig við lok grunnskóla.

Unglingarnir vilja sjá fjölbreyttari kennsluhætti og þeim þykir einkunnakerfi ekki nægilega vel lýsandi fyrir árangur. Þá er mikill vilji fyrir því að að lengja framhaldsskólann aftur í fjögur ár. 

Þetta er meðal þess sem kom fram á Landsmóti Samfés og Landsþingi ungs fólks sem fór fram á Akranesi um síðastliðna helgi. Þar komu saman um 450 manns, unglingar á aldrinum 13 - 16 ára og starfsfólk félagsmiðstöðva víðsvegar af landinu.

Telja vopnaburð algengan

Einnig var rætt um vopnaburð sem þátttakendur telja algengan en óeðlilegan og vilja leggja áherslu á mikilvægi þess að fræða börn og ungmenni um alvarleika ofbeldis og mikilvægi þess að tilkynna það svo allir hlutaðeigandi fái viðeigandi aðstoð.

Þá kom fram að ungt fólk telur mikilvægt að auka fjármagn til reksturs félagsmiðstöðva og ungmennahúsa. Ásamt því að fjölga ungmennahúsum um land allt og auka sýnileika þeirra. 

Fá tækifæri til að koma skoðunum á framfæri 

Á Landsþinginu hefur ungt fólk af öllu landinu tækifæri til að koma sínum hugmyndum, skoðunum og ábendingum er varða málefni ungs fólks á framfæri. Með virkri lýðræðislegri og aukinni samfélagslegri þátttöku ungs fólks er verið að tryggja að rödd þeirra berist ráðamönnum. Auk þess er rík áhersla á mikilvægi þess að hitta jafnaldra sína, kynnast nýju fólki og að allir skemmti sér sem best, að segir í tilkynningu.

Markmiðið með Landsmóti Samfés, sem nú var haldið í 33. sinn, er að auka sýnileika á mikilvægi þátttöku barna og ungmenna um allt land, hvetja unglinga til lýðræðislegrar þátttöku, skapa vettvang sem eykur samfélagslega virkni, hvetja þau til að taka afstöðu og segja sína skoðun á málefnum sem varða þau. 

Málefnin sem tekin voru fyrir á landsþingi voru ákveðin og skipulögð af Ungmennaráði Samfés. Þar eru lýðræðisleg vinnubrögð og valdefling allsráðandi. Á landsþingi í ár var lögð áhersla á heilsu, menntamál, félagsmiðstöðvar og ungmennahús, efnishyggju, ofbeldi og fíkn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert