Þórhildur segist engin lög hafa brotið

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. mbl.is/Hari

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, tjáir sig á Facebook-síðu sinni um það umrót sem átt hefur sér stað innan þingflokks Pírata.

Í yfirlýsingunni, sem er tvíþætt, segir hún að hvorki hún né þingflokkur Pírata hafi beitt sér gegn lýðræðislega kjörinni framkvæmdastjórn félagsins.

Eins hafnar hún því að hún eða aðrir í þingflokki Pírata hafi farið á svig við persónuverndarlög þegar skjáskot af spjalli fólks sem bauð sig fram í framkvæmdastjórn voru tekin til umfjöllunar á þingflokksfundi.

Hafnar því að hafa brotið lög 

Með þessu segist hún vera að bregðast við rangfærslum í málinu. 

„Verð ég að gefnu tilefni að leiðrétta ákveðnar rangfærslur:

  1. Ég ítreka að hvorki ég né þingflokkur Pírata höfum beitt okkur gegn lýðræðislega kjörinni stjórn félagsins, hvað þá reynt að steypa henni af stóli.
  2. Því fer fjarri að ég eða aðrir í þingflokki Pírata hafi farið á svig við persónuverndarlög. Umrædd skjáskot, sem bárust þingflokknum og minnst hefur verið á í fjölmiðlaumfjöllun, fóru ekki í nokkra dreifingu eins og ranglega hefur verið haldið fram,“ segir Þórhildur Sunna í færslu sinni.

Atkvæðamagni breytt og skjáskot rædd

Nokkur styr hefur staðið innan flokksins eftir að ný framkvæmdastjórn var kjörin. Voru öfl innan flokksins ósátt við að fyrrum formaðurinn Atli Yngvarsson hefði ekki fengið brautargengi en hann varð fyrsti varamaður í stjórn eftir að niðurstaða kjörsins var gerð ljós. Í framhaldinu var tekin ákvörðun um að varamenn í stjórn myndu fá atkvæðarétt.

Í framhaldinu bárust fregnir af því að skjáskot af spjalli fólks sem var að undirbúa að bjóða sig fram til framkvæmdastjórnar væru rædd á þingflokksfundi Pírata. Fundurinn var tveimur dögum eftir niðurstöðu úr kjöri til stjórnar.

Atli Þór Fanndal, samskiptastjóri Pírata, sem hætti í kjölfar kjörsins telur þingflokkinn hafa brotið á sér og átta öðrum sem tóku þátt í spjalli á samskiptaforritinu Signal í aðdraganda þess þau buðu sig fram til stjórnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert