„Við erum öll í vanda með okkar fylgi“

Svandís Svavarsdóttir, formaður VG og innviðaráðherra.
Svandís Svavarsdóttir, formaður VG og innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Svandís Svavarsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir skipta miklu máli að þær áherslur sem hún standi fyrir komist til skila inn á fund formanna stjórnarflokkanna og síðan að ríkisstjórnarborðinu. Hún viðurkennir að ríkisstjórnarflokkarnir séu allir í vanda þegar komi að stuðningi þessa stundina, en að hún telji ríkisstjórnina eiga innistæðu til að reisa sig við núna á lokametrunum fram að kosningum og geta komið stórum málum í gegn.

Eftir ríkisstjórnarfund í dag fundaði Svandís með Sigurði Inga Jóhannssyni, fjármálaráðherra og formanni Framsóknarflokksins, og Bjarna Benediktssyni, forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins. Þetta var fyrsti fundur hennar sem formaður Vinstri grænna með hinum formönnum ríkisstjórnarinnar.

Alltaf breytingar, en samt sama fólkið

„Það er tilefni til að setjast aðeins niður og allt þetta gefur tilefni til að við ráðum ráðum okkar. Staðan í ríkisstjórnarflokkunum er snúin. Við erum öll í vanda með okkar fylgi og stuðning við okkar flokka. Ríkisstjórnin á líka á brattan að sækja, en á sama tíma erum við að sjá mjög mikinn árangur í stórum og mikilvægum málum, ekki síst í efnahagsstjórninni þar sem verðbólgan er á undanhaldi og vaxtastigið er að gefa á eftir,“ sagði Svandís eftir fundinn og tók fram að sú efnahagsþróun væri stærsta kjaramálið fyrir heimili og fjölskyldur landsins.

Spurð hvort að ríkisstjórnin muni breytast með tilkomu hennar sem oddvita segir Svandís að það hafi alltaf áhrif þegar breytingar verða á samsetningu flokka. „Við Guðmundur Ingi [Guðbrandsson] færumst til við ríkisstjórnarborðið, en það er sama fólkið þarna,“ segir hún.

Svandís tekur fram að hún hafi mjög sterkt umboð frá landsfundinum til forystu Vinstri grænna og fyrir þær áherslur sem hún hafi talað fyrir. „Það skiptir miklu máli að þær áherslur komist til skila inn á fund formanna og síðan að ríkisstjórnarborðinu.“

Formenn þurfa að hittast reglulega og skerpa á áherslum

Hún hefur áður sagt að hún vilji ekki sjá breytingar á útlendingamálunum, en spurð hvort það séu önnur mál sem ræða eigi við ríkisstjórnarborðið og Vinstri græn telji að eigi að sleppa á þessum þingvetri segir Svandís svo ekki vera. Hins vegar þurfi formennirnir að finna út úr því hvaða máli skipti mestu máli.

„Við byggjum á stjórnarsáttmála og erum með tiltekin mál sem eru mikilvæg fyrir land og þjóð. Ég nefni t.d. samgönguáætlun sem er mjög mikilvægt að við ljúkum við. Við þurfum að ljúka við afgreiðslu fjárlaga og það er langir listar af þingmálum sem eru á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar.“

Segir Svandís að formenn flokkanna þurfi nú að hittast reglulega til að skerpa á áherslum fyrir þingveturinn. „Ég held að það sé fullt tilefni til og innistæða fyrir því að ríkisstjórnin nái að reisa sig núna á lokametrunum“

„Flokkarnir þurfa að byrja að undirbúa kosningar

Spurð út í hvort að kosningar í vor hafi eitthvað verið ræddar á fundinum segir Svandís svo ekki hafa verið. Fundurinn hafi verið nokkuð stuttur og ekki ítarlegur til að fara yfir þau mál.

En hvenær mun þá slíkt liggja fyrir og hvaða tímarammi er varðandi ákvörðun um kosningar? „Eitt af því sem við erum að ræða og þurfum að ræða, en ég hef enga tímasetningu í því. En held að það sé gott fyrir þingið og okkur öll að það gerist á næstunni,“ segir Svandís.

„Ég held að það sé okkur öllum ljóst að flokkarnir þurfa að byrja að undirbúa kosningar. Það liggur í hlutarins eðli. Þó við höfum 150 eða 200 eða 250 daga til stefnu, þá er öllum ljóst að það er næst á dagskrá að finna næst úr því hvernig á að stilla upp á lista og hvaða kosningaáherslur flokkarnir ætla að leggja til grundvelli,“ bætir hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert