Vilja að sveitarfélög slíti viðskiptum við Rapyd

Íbúarnir tuttugu kalla eftir því að sveitarfélögin á Íslandi slíti …
Íbúarnir tuttugu kalla eftir því að sveitarfélögin á Íslandi slíti viðskiptum við greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd. mbl.is/​Hari

Tuttugu íbúar í tuttugu sveitarfélögum kalla eftir því að sveitarfélög hætti að stunda viðskipti við greiðslumiðlunarfyrirtækið Rapyd. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópnum.

Rapyd er ísraleskt fyrirtæki og hefur alþjóðlegur forstjóri þess, Arik Shtilman, opinberlega lýst stuðningi við stríðsrekstur Ísraels. 

Íbúarnir öfluðu upplýsinga um hvaða sveitarfélög á Íslandi væru í viðskiptum við Rapyd. Að því er fram kemur í tilkynningunni eru þau 27. Upplýsinga um færsluhirðingu sveitarfélaga var aflað frá febrúarlokum til júní 2024. Í tilkynningunni er tekið fram að fjöldinn gæti hafa breyst frá því að upplýsingarnar bárust.

Sveitarfélögin ekki bundin

„[Þ]egar íbúar greiða fyrir þjónustu í sínu nærsamfélagi með greiðslukorti - s.s. aðgang að sundlaugum eða bókasafnskort - renna gjöld til Rapyd,“ segir í tilkynningu frá hópnum.

Fjársýslan fyrir hönd ríkisins er með samning við Rapyd um færsluþjónustu hjá A-hluta stofnunum ríkisins. Sveitarfélögin eru ekki A-hluta stofnanir og eru því ekki bundin þeim samningi. Þeim er því frjálst að skipta við annað greiðslumiðlunarfyrirtæki en Rapyd,“ segir þar enn fremur.

„Skýlaust brot“

Telur hópurinn bæði sterk lagaleg og siðferðisleg rök fyrir því að íslensk sveitarfélög ættu ekki að stunda viðskipti við ísraelska fyrirtækið.

„Landrán Ísraels í Palestínu er skýlaust brot á alþjóðalögum líkt og úrskurður Alþjóðadómstólsins frá því í júlí staðfestir. Rapyd starfar í landtökubyggðum Ísraels á Vesturbakkanum og er því þátttakandi í brotum á alþjóðalögum og hagnast á ólöglegu hernámi og landtöku Ísraels. Opinberir aðilar líkt og sveitarfélögin geta ekki verið í viðskiptasambandi við slíkt fyrirtæki. Það stríðir bæði gegn lagalegri og siðferðislegri skyldu íslenska ríkisins, opinberri stefnu ríkisins sem og mannréttindastefnu sveitarfélaganna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert