Yfir 100 rafmagnsmælar eyðilögðust

Mývatn.
Mývatn. mbl.is/RAX

Rarik þarf að skipta um yfir 100 rafmagnsmæla sem skemmdust í víðtækum rafmagnstruflunum í síðustu viku.

Um er að ræða sölumæla sem í einhverjum tilfellum var nýbúið að skipta út fyrir snjallmæla.

Nánast allir mælarnir eru á heimilum fólks í Mývatnssveit, þar sem mikil truflun varð á spennu. Þar varð ekki útleysing, sem olli því að höggið úr kerfinu barst allra leið til viðskiptavina.

„Þegar sölumælirinn virkar ekki er ekki hægt að rukka fyrir rafmagnsnotkun,“ segir Guðrún Vaka Helgadóttir, sérfræðingur á sviði samskipta og samfélagsmála hjá Rarik.

Háspennulínur.
Háspennulínur. Ljósmynd/Landsnet

Um 170 tilkynningar hafa borist Rarik vegna tjóns á ýmsum tækjum vegna rafmagnstruflananna.

Rarik hvetur viðskiptavini sína sem eru á dreifisvæði Rarik til að taka saman tjónið með aðstoð fagaðila áður en þeir senda þeim tilkynningu.

„Ómögulegt að vera ísskápslaus“

Guðrún Vaka segir að settur verði aukinn kraftur í að vinna úr beiðnunum sem berast enda skilji Rarik að fólk vilji fá að vita sem allra fyrst hvort og hvernig það getur fengið tjónið sitt bætt.

„Það er ómögulegt að vera ísskápslaus og þvottavélarlaus í langan tíma,“ nefnir hún. „Það eru ekkert allir sem eiga pening til að rjúka í búðina og kaupa nýtt og bíða svo eftir bótum.“

Spurð segir hún Rarik vinna mjög náið með flutningsaðilanum Landsneti vegna tjónatilkynninga, en Rarik er dreifiveitan og milliliður fyrir viðskiptavininn. Hún bætir við að ábyrgðin liggi líklega öll hjá Landsneti vegna þess að truflunin hafi komið upp í þeirra kerfum. 

Tilkynningar á tryggingafélög í vikunni

„Við munum reyna að koma þessu [tjónatilkynningunum] á tryggingafélögin í vikunni. Við erum að vinna þetta eins hratt og okkur er mögulegt. Þetta er algjört forgangsmál hjá okkur að koma þessu í góðan farveg,“ segir Guðrún Vaka.

Hún kveðst ekki hafa upplýsingar um heildartjón vegna rafmangstruflananna en talar um „stórtjón“ í því samhengi. Hún hefur heldur ekki upplýsingar um hversu margir lentu í tugmilljónatjóni vegna þess sem gerðist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert