Auglýsingunni ætlað að ögra

„Til notkunar á framkvæmdastjórnarfundum - Þú tekur varla eftir því …
„Til notkunar á framkvæmdastjórnarfundum - Þú tekur varla eftir því að það vanti konu.“ stendur á kassa kertisins. Ljósmynd/Aðsend

Mörgum netverjum blöskraði auglýsing Hagkaupa á ilmkerti sem ber nafni Ilmur af konu, sem verslunin birti á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi.

Auglýsingin var tekin niður í kjölfarið en í ljós hefur komið að kertið og auglýsingin voru unnin í samstarfi við Jafvægisvog Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA) til að vekja athygli á ójöfnu hlutfalli kvenna og karla í stjórnendastöðum á Íslandi. 

Í því skyni var ákveðið að framleiða kerti sem heita Ilmur af konu. Um leið var útbúin svohljóðandi auglýsing: „Vantar konur í þitt fundarherbergi?“ Utan á kassa kertisins er áletrað: „Til notkunar á framkvæmdastjórnarfundum - Þú tekur varla eftir því að það vanti konu.“

Notkun kertisins „galin“

Bryndís Reynisdóttir, verkefnastjóri Jafnvægisvogarinnar, segir það ætlun herferðarinnar að stuða almenning til að vekja fólk til umhugsunar. Það hafi tekist sem sýni að baráttunni sé síður en svo lokið. 

„Viðbrögðin sýndu okkur að flestum þætti notkun á slíku kerti jafn galin hugmynd og
okkur. Það sýnir okkur að jafnrétti skiptir fólk máli.“

FKA og forsætisráðuneytið settu sér það markmið 2019 að árið 2027 yrði hlutfall kvenna og karla í framkvæmdastjórnum fyrirtækja á Íslandi orðið 40/60.

Samkvæmt Jafnvægisvoginni 2023, mun markmiðið ekki nást að óbreyttu þar sem 75% allra nýráðninga í æðstu stöður eru karlar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka