Brottvísunin blásin af í smáskilaboðum ráðherra

Guðrún staðfesti við ríkislögreglustjóra að brottvísun Yazans Tamimi yrði fresta …
Guðrún staðfesti við ríkislögreglustjóra að brottvísun Yazans Tamimi yrði fresta 37 mínútum fyrir brottför. Samsett mynd/Aðsend/Karítas

Smáskilaboð milli dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra sýna að rúmur hálftími var til stefnu er dómsmálaráðherra blés af brottvísun Yazans Tamimi. Hafði félags- og vinnumarkaðsráðherra þá þegar haft samband við ríkislögreglustjóra sjálfur.

Spegillinn á RÚV óskaði eftir öllum upplýsingum í tengslum við málið frá embætti ríkislögreglustjóra, dómsmálaráðuneytinu og forsætisráðuneytinu og greindi frá þeim í dag.

Hafa upplýsingarnar gefið skýrari mynd af atburðarásinni sem hófst síðla sunnudagskvölds þann 15. september.

Ríkislögreglustjóri veitti ekki gögn

Aðgerðir ríkislögreglustjóra hófust klukkan 22.40 er lögreglumenn ásamt starfsmanni barnaverndar og lækni vöktu Yazan á sjúkrabeði í Rjóðrinu – hjúkrunar- og endurhæfingardeild fyrir langveik og fötluð börn.

Athygli vakti að réttindagæslumaður fatlaðra og lögfræðingur fjölskyldunnar voru ekki látin vita af brottvísuninni.

Var það deildarstjóri í Rjóðrinu sem gerði yfirlögfræðingi réttindagæslu fatlaðra viðvart um aðgerðina rúmum klukkutíma eftir að hún hófst eða klukkan 23.45. Fyrstu fréttir af málinu bárust laust eftir miðnætti og var efnt til skyndimótmæla í Leifsstöð, en mál Yazans hefur snert marga illa, einkum í ljósi heilsufars hans.

Yazan var vakinn á sjúkrabeði í rjóðrinu síðla sunnudagskvölds í …
Yazan var vakinn á sjúkrabeði í rjóðrinu síðla sunnudagskvölds í september þegar til stóð að flytja hann úr landi. mbl.is/Karítas

Dómsmálaráðherra svaraði ekki síma

Hafa bæði forsætisráðuneytið og dómsmálaráðuneytið orðið við beiðni Spegilsins en ríkislögreglustjóri hafnaði beiðninni á þeim forsendum að embættið teldi sig ekki hafa heimild til að veita gögn um einstaka mál.

Dómsmálaráðuneytið afhenti samskipti dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra um morguninn en af þeim má lesa að dómsmálaráðherra hafi misst af fleiri en einu símtali frá ríkislögreglustjóra.

Klukkan 7 hafi dómsmálaráðherra hringt til baka í ríkislögreglustjóra en í því símtali upplýsti ríkislögreglustjóri ráðherra um að rík áhersla hafi verið lögð á við embættið að flutningi Yazans yrði frestað og að skammur tími væri til stefnu. Ef taka þyrfti ákvörðun í málinu þyrfti það að gerast á næstu mínútum.

Í svari við fyrirspurn um það hver hefði lagt svo ríka áherslu á að brottflutningi Yazans yrði frestað við embættið kemur fram að klukkan 06:04 hafi félags- og vinnumarkaðsráðherra haft samband við ríkislögreglustjóra símleiðis til að lýsa yfir áhyggjum sínum af framkvæmdinni.

Guðrún sendi skilaboð „Frá Bjarna“

Klukkan 7.29, um tuttugu mínútum frá símtali ríkislögreglustjóra og dómsmálaráðherra þar til dómsmálaráðherra upplýsir ríkislögreglustjóra um að fresta beri brottflutningi.

Klukkan 7.38 sendir ríkislögreglustjóri skilaboð til dómsmálaráðherra og biður þar um skriflega staðfestingu: „Sæl. Í kjölfar samtals okkar rétt í þessu stöðva ég flutning að beiðni forsætisráðherra. Vinsamlegast staðfestu móttöku.“

Klukkan 7.46 sendir dómsmálaráðherra staðfestingu fyrir hönd forsætisráðherra. 
„Frá Bjarna: Ákvörðun um brottvísun stendur eðli málsins samkvæmt. Óska eftir að framkvæmd brottvísunar verði frestað í þeim tilgangi að tækifæri gefist til að eiga samráð innan stjórnarinnar. Óskað er eftir því af ráðherrum.“

Klukkan 7.48 svarar ríkislögreglustjóri: „Móttekið.“

Áætluð brottför Icelandair til Barcelóna var 8.25 eða 37 mínútum eftir að dómsmálaráðherra staðfesti að fresta ætti brottflutningi fjölskyldunnar.

Mál Yazans snerti marga illa einkum í ljósi heilsufars hans.
Mál Yazans snerti marga illa einkum í ljósi heilsufars hans. mbl.is/Karítas

Svandís og Guðmundur hringdu í Bjarna

Forsætisráðuneytið upplýsti Spegilinn um að bæði Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefðu haft samband við forsætisráðherra til að viðra áhyggjur sínar af brottvísun fjölskyldunnar.

Er bent á í svarinu að félags- og vinnumarkaðsráðherra fari með málefni fatlaðs fólks og að hann hafi óskað eftir því að brottflutningi fjölskyldunnar yrði frestað. Hann hafi haft áhyggjur af því hvernig réttinda fatlaðs fólks yrði gætt og óskað eftir því að málið yrði rætt á vettvangi ríkisstjórnarinnar.

Forsætisráðherra hafi í kjölfarið rætt við Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra símleiðis og staðfest skriflega við ráðherrann að óskað væri frestunar brottflutningsins af framangreindum ástæðum.

Dvalarleyfi til tveggja ára

Yazan og fjölskylda hans hafa í kjölfarið hlotið alþjóðlega vernd hér á landi og þar með dvalarleyfi til tveggja ára sem hún hefur möguleika á að endurnýja.

Ástæða þess að upphaflega átti að vísa fjölskyldunni aftur til Spánar var sú að þau millilentu á Spáni á leið sinni til Íslands, en þurftu vegna verkfalls að yfirgefa flugvöllinn sem hafði þær afleiðingar að þar með þurftu þau að skrá sig inn í landið.

Samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni ber fólki að sækja um hæli í fyrsta Evrópulandinu sem það er skráð inn í en það ákvæði gildir í tvö ár og rann út þann 21. september, fimm dögum eftir að brottflutningi var frestað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert