Kona á fertugsaldri, erlendur ferðamaður sem var á ferð í Stuðlagil við annan mann, fannst látin í Jökulsá skammt neðan við Stuðlagil skömmu fyrir kl. 17 í dag.
Lögreglunni barst tilkynning um að einstaklingur hefði fallið í ána á þriðja tímanum í dag. Viðkomandi hafði sést fljóta í ánni en síðan horfið sjónum.
Lögreglan á Austurlandi fer með rannsókn málsins.
Að leitinni komu björgunarsveitir frá Austurlandi, áhöfn á þyrlu Landhelgisgæslunnar, sjúkraliðar og lögregla.
Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út til að flytja kafara slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu á vettvang en var síðar kölluð til baka.
Fréttin hefur verið uppfærð.