Lögreglan var með mikinn viðbúnað þar sem tilkynnt var um líkamsárás þar sem hníf hafði verið beitt.
Tilkynningin barst á lögreglustöð 4 sem sinnir Grafarvogi, Árbæ og Mosfellsbæ. Tveir aðilar voru handteknir á vettvangi. Einn var fluttur á slysadeild með stunguáverka og er ekki vitað með ástand hans.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna hennar frá klukkan 17 í gærkvöld til klukkan 5 í nótt.
Tilkynnt var um mann með hníf utan við húsnæði í miðbænum. Maðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð vegna málsins.
Þá var lögregla kölluð til vegna líkamsárásar í miðborginni. Á leið á vettvang bárust þær upplýsingar að gerandi væri búinn að taka bifreið þess sem hann réðst á og væri á leið af vettvangi. Gerandinn var stöðvaður í akstri skömmu síðar á bifreiðinni og var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis/fíkniefna ásamt því að vera grunaður um fleiri brot.
Lögreglumenn á lögreglustöð 2, sem sinnir Hafnarfirði, Garðabæ og Álftanesi, stöðvaði ökumann sem er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Við afskipti lögreglu reyndi maðurinn að sleppa en var yfirbugaður og er málið í rannsókn hjá lögreglu.